138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér nokkur framhaldsnefndarálit um fjármálafyrirtæki. Við erum komin langt í umræðunni um málið en eins og ég hef áður getið um finnst mér skorta illilega framtíðarsýn. Hvert eru menn að stefna með bankana, með sparisjóðina, með öll þau fyrirtæki sem bankarnir eiga, með vátryggingafélögin o.s.frv.? Ég sé enga sýn. Það er enginn sem segir mér hvernig við viljum hafa þetta eftir fimm ár, tíu ár eða fimmtán ár? Inn í þetta blandast umræða um sparnað og eyðslu, sparifjáreigendur og skuldara. Hér á Alþingi er verið að grípa til fjöldans alls af neyðarráðstöfunum fyrir skuldara og búið að gera dálítið lengi og veitir í sjálfu sér ekki af, en það vantar líka framtíðarsýn. Hvernig ætlum við að stuðla að því að sparnaður í landinu vaxi o.s.frv.?

Við erum í þeirri óvenjulegu stöðu, ég mundi segja jákvæðu stöðu, að hvor bankinn er í eigu eins fyrirtækis, sem aftur er í eigu kröfuhafa sem enginn veit hverjir eru. Þá er ég að tala um þessa tvo einkabanka sem hæstv. ríkisstjórn einkavæddi, frekar hljóðlega — það voru miklu meiri læti um þetta mál, einkavæðinguna, á árum áður. Þessir kröfuhafar eru ekki beinir eigendur enn af því að ekki er búið að gera málin upp en þeir koma sem eigendur og það er hægt að nota sér þá stöðu og menn eiga að nota sér þá stöðu. Svo eiga bankarnir fjöldann allan af fyrirtækjum, eða hlut í fyrirtækjum, vegna þess að þeir hafa tekið þau upp í skuldir, bæði eini ríkisbankinn, nýi Landsbankinn, og báðir einkabankarnir. Ég vænti þess að bankarnir ætli nú að selja þessi fyrirtæki með tíð og tíma og frekar fyrr en seinna. Þá gefst annað tækifæri til að gera það skynsamlega ef menn nota tækifærið, en mér sýnist menn ekkert vera að nota það vegna þess að þeir hafa enga framtíðarsýn. Það er vandamálið.

Ég hef flutt frumvarp um gagnsæ hlutafélög og ég tel að hrunið hafi orsakast af því að útrásarvíkingar og fleiri hafi í mjög miklum mæli notað veilu í hlutafélagaforminu, óvenjumiklum mæli. Þessi veila er talsvert notuð í Japan og Þýskalandi, sem og í Bandaríkjunum og fleiri löndum, en hún felst í því að félög eiga hvert annað annaðhvort með krosseignarhaldi, þ.e. hvort í öðru, eða í raðeignarhaldi, þar sem A á í B og B á í C og C á í A, þ.e. eignarhaldið fer í hring og fjármagnið líka. Inn í þetta blandast lánveitingar og annað slíkt.

Ef við ætlum að skapa traust á bæði stofnbréfum og hlutabréfum þarf að koma í veg fyrir þessa veilu því að hún gerði það að verkum að allt heila kerfið var samtengt og ef einhvers staðar var komið við, einhvers staðar var eitthvað áfall, titraði allt kerfið og hrundi. Menn notuðu þessa veilu til þess að sjúga út úr bönkunum feiknamikla fjármuni sem að einhverju leyti voru ekki einu sinni til en var lánað til. Þannig komu þeir í bakið á litlu hluthöfunum sem höfðu lagt ævisparnaðinn þarna inn, ósköp venjulegu fólki sem tapaði öllu sínu. Þegar menn tala um það hér sýknt og heilagt að fjármagnseigendur hafi allt sitt á þurru þykir mér það ansi hastarlegt í garð þeirra fjármagnseigenda áhættufjár sem töpuðu öllu sínu.

Það sem við gætum gert væri, það að segja í þessum lögum, að þeir eigendur í bönkunum sem eru hlutafélög — það verður væntanlega stærsti hlutinn, allir þessir kröfuhafar o.s.frv. — þurfi að sýna fram á eignarhaldið í hlutafélögum sem eiga í þeim og hlutafélögum sem aftur eiga í þeim, það þarf að sýna allt eignarhaldið alveg upp úr, þá fá þau atkvæðisrétt, ella ekki. Þau fá ekki atkvæðisrétt nema þau sýni allt þetta eignarhald. Auk þess þarf að setja inn reglu og í lögin að fjármálafyrirtæki megi aldrei kaupa eða lána eða veita veð í hlutabréfum í eigendum sínum, sem liggja fyrir upp alla keðjuna. Ef það liggur ekki fyrir fá viðkomandi hluthafar ekki atkvæðisrétt og jafnvel mætti hugleiða hvort þeir fái arðsrétt. Ég mundi segja að þeir ættu að fá helmingsarðsrétt, eitthvað slíkt, ekki fullan arð.

Þetta er tækifæri sem við höfum, frú forseti. Ef kröfuhafarnir fara í hart út af þessu, í málaferli, er hægt að sýna þeim fram á þessa veilu, að það sé svo mikilvægt að koma í veg fyrir þessa veilu að það varði þjóðaröryggi. Þeir munu ekki geta mælt gegn því að hægt er að sýna og teikna upp kerfi að svona hlutafélögum sem öll eru óháð, öll eru með eigið fé, en samt er enginn peningur í allri keðjunni. Þetta hef ég gert í fylgiriti með frumvarpi um gagnsæ hlutafélög. Þetta er fyrsta tækifærið sem við höfum og við erum að missa af því, frú forseti. Við erum að missa af þessu tækifæri.

Annað tækifæri sem við höfum eru öll fyrirtækin sem bankarnir eiga. Við getum selt þau af því að þetta eru hlutafélög. Þá getur bankinn, áður en hann selur þau, breytt samþykktum þessara hlutafélaga á þann veg að þau skuli upplýsa um alla eigendur alla tíð, þannig að það liggi fyrir hverjir eiga hlutafélögin, upp alla keðjuna. Með sama hætti megi aldrei lána til eða kaupa í þeim félögum eða taka veð í hlutabréfum einhvers staðar í þessu eigendakerfi. Ef þetta yrði gert er pínulítil von til þess, frú forseti, að almenningur fái aftur traust á hlutafélögum. Því þetta var veilan. Það er hennar vegna sem 50 þúsund manns töpuðu umtalsverðum fjármunum, um 80 milljörðum, á hlutabréfum í hruninu. Þess vegna töpuðust sennilega 10 milljarðar í stofnbréfum. Það sama ætti að gera varðandi sparisjóðina.

Við höfum þetta tækifæri núna af því að við erum að breyta lögum um fjármálafyrirtæki, en mér sýnist, vegna þess að menn hafa enga framtíðarsýn, sjá ekki fram fyrir nefið á sér og vita ekkert hvert þeir eru að fara, að menn ætli ekki að nota það tækifæri, sem er alveg gullið, til að breyta þessu. Ég tel nefnilega, frú forseti, að það sé mjög brýnt að auka traust manna á hlutafjáreign og stofnfjáreign.

Það sem við erum að leggja upp í frumvarpinu — það er ekki einu sinni á hreinu hvort menn ætla að hafa fjárfestingarbankastarfsemi með viðskiptabankastarfsemi eða ekki, það er bara óbreytt. Þetta verður bara óbreytt eins og þetta er og töluvert mikið af umræðum hér hefur snúist um þetta. Það snertir hins vegar sparifjáreigendur. Það er líka mikilvægt að byggja upp traust þeirra sem menn eru kerfisbundið, virðist vera, af hendi ríkisstjórnarinnar, að vinna gegn, því miður.

Varðandi traust á hlutabréfum og stofnbréfum — af hverju skyldum við vilja hafa traust á þessum fyrirbærum? Vegna þess að það verður ekki sköpuð atvinna í þessu landi nema annaðhvort með fjárfestingum, þ.e. með áhættufé, eða með lánsfé. Öðruvísi er ekki hægt að skapa atvinnutækifæri í landinu. Ég sé enga aðra leið nema ríki geri allt saman með sínu skattfé sem ég tel engan veginn æskilegt. Ég held að flestir séu á þeirri skoðun að það sé ekki æskilegt. Þannig að til þess að hér skapist atvinna þarf áhættufé og lánsfé, og hvort tveggja krefst trausts. Bankarnir vilja ekki einu sinni lána í íslensk fyrirtæki, þeir leggja heldur inn í Seðlabankann vegna þess að þeir treysta ekki fyrirtækjunum. Vegna þess sem gerst hefur, vegna þess hvað þeir eru búnir að tapa miklu — útlendir fjárfestar og lánveitendur því síður. Þeir hafa tapað þvílíkum upphæðum að þeir hafa engan áhuga á því að fjárfesta eða lána til íslensks atvinnulífs.

Til þess að skapa atvinnu verða menn að auka traustið. Nú er einmitt gullið tækifæri til þess, við afgreiðslu þessa frumvarps sem verður reyndar, það er mjög liðið á umræðuna, bráðum að lögum ef fram heldur sem horfir, en menn hafa misst af þessu tækifæri. Þeir missa af tækifærinu af því að þeir hafa ekki framtíðarsýn um hvert þeir eru að stefna. Ætla þeir virkilega að hafa sparisjóðina með einn stofnfjáreiganda alla saman og sá stofnfjáreigandi heitir ríkið? Hvurs lags sparisjóður er það? Ég spyr? Hvernig ætla þeir að galdra nýja stofnfjáreigendur inn í sparisjóðina ef enginn hefur traust á þeim, ef allir eru búnir að brenna sig nýlega á því að hafa tapað öllum sínum eignum, í gegnum kaup á stofnfé með lánum? Hvernig ætla menn að auka traustið aftur? Hvernig ætla menn að auka traust á hlutafélögum sem á að fara að selja út úr bönkunum ef menn geta horft upp á það sama og varð til í hruninu?

Mér þykir því mjög miður, frú forseti, að menn skuli ekki nota þetta gullna tækifæri til að auka traust á hlutabréfum og stofnbréfum með þessu frumvarpi og jafnframt traust sparifjáreigenda. Það er nefnilega þannig að um leið og traust kemur á hlutabréf og stofnbréf, þ.e. á áhættufé, fá sparifjáreigendur líka traust á viðkomandi fyrirtæki og væru tilbúnir til að leggja inn.

Undanfarið hafa menn verið að ræða alls konar hugmyndir til þess að bjarga stöðu skuldara. Margar hverjar, ekki allar, ganga út á það að skerða réttindi sparifjáreigenda. Menn tala mjög léttúðlega um það að þeir sem hafa allt sitt á þurru o.s.frv. geti nú tekið upp budduna og borgað og það megi alveg ganga á eignarrétt þeirra af því að það sé neyðarástand o.s.frv. Já, já, menn skulu bara ganga á eignarrétt sparifjáreigenda en þá geta þeir gleymt því að hér myndist sparnaður næstu 20–30 árin. Og ef enginn sparnaður er í landinu, ekkert sparifé nema náttúrlega lífeyrissjóðirnir, sem eru þvingaður sparnaður, þá geta þeir líka gleymt allri fjárfestingu. Það verður nefnilega ekki bæði haldið og sleppt. Það er engin einasta króna lánuð út nema hún sé spöruð.

Íslendingar hafa hingað til, í áratugi, notað erlent sparifé til að fjármagna framkvæmdir. Hér hefur verið mjög lítill innlendur sparnaður. Menn ætla sér að hrekkja sparifjáreigendurna enn einu sinni, menn gerðu það frá 1950–1980 með þeim hætti að sparnaður bara dó. Það var enginn sparnaður í landinu 1980, hann var horfinn. Við höfum alla tíð notað erlenda sparifjáreigendur til að fjármagna það sem okkur langar til að kaupa eða fjárfesta í. En nú bara segja þeir nei. Þeir eru búnir að tapa svo miklu hér á landi að þeir vilja ekki lengur lána til Íslands sitt góða sparifé og nú verður þjóðin að spara sjálf. Þess vegna er svo mikilvægt, feiknalega mikilvægt, að allir hv. þingmenn taki höndum saman um að byggja traust á sparnaði hjá þessari þjóð — ráðdeildarsemi og sparnaður, það er það sem ætti að gerast í dag.

Hvað gera menn á sama tíma? Menn auka skatta á sparnað. Jafnvel þegar vextirnir eru neikvæðir skulu þeir skattlagðir. Menn eru með hugleiðingar um það jafnvel að skattleggja niðurfellingu á skuldum og átta sig ekki á því að það er veila í skattkerfinu. Svo eru menn hér með frumvarp um forgang veðkrafna í Landsbankanum, sem fara fram fyrir sparifjáreigendur í forganginum, og auka ótta sparifjáreigenda enn frekar.

Ég held að menn þurfi virkilega að fara að hugsa um sparifjáreigendur, ekki síður en skuldara. Varðandi það að sparifjáreigendur hafi allt sitt á þurru — jú, innlánunum var bjargað, en nú eru þau að brenna upp í verðbólgu. En ef menn mæla þau í evrum eða jenum hafa þau lækkað stórkostlega. Á sama tíma og Icesave-innlánseigendur fengu kröfur sínar greiddar út í evrum hafa íslenskir sparifjáreigendur þurft að horfa á bak 30–40% af innstæðum sínum vegna þess að krónan hefur fallið, en þeir eru flestir með innstæður í krónum. Þannig að það er ekki rétt að þeir hafi allt sitt á þurru. Ég ætla að biðja menn að fara nú að huga að því að við verðum að hafa innlendan sparnað eftir 20–30 ár.