138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Nú ræðum við frumvarp til fjárlaga eins og það hefur breyst hér í þinginu, þ.e. það liggja breytingartillögur fyrir þinginu frá því við vorum með málið síðast í 2. umr. Við erum með frumvarpið núna eins og það lítur út eftir 2. umr. og það hafa komið fram mjög mikilvægar breytingar. Sú gagnrýni sem við færðum fram á þetta mál í 2. umr. snerist í fyrsta lagi um það að málið tæki ekki á grundvallarvandanum sem fjármálakerfi okkar hér á Íslandi bjó við fyrir hrun. Í öðru lagi köllum við auðvitað eftir skýringum á því hvers vegna stjórnarflokkarnir, sem hafa haldið uppi mjög stífri gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn, sérstaklega fyrir að hafa ekki búið betur um hnútana hér áður fyrr, komi ekki með neinar raunverulegar tillögur um þau atriði sem helst hefur verið haldið á lofti í þeirri gagnrýni. Þar má t.d. nefna að við í Sjálfstæðisflokknum höfum verið mjög gagnrýndir fyrir að hafa ekki tryggt dreifðara eignarhald að fjármálafyrirtækjum í landinu. Nú þegar stjórnarflokkarnir koma fram með þetta frumvarp eftir alla þessa gagnrýni er ekkert að finna í málinu um það að eignarhald skuli vera dreift á fjármálafyrirtækjum.

Við vitum öll að viðskipti eigenda við bankana fóru úr böndunum. Við höfum sagt í umræðu um þau mál að það þurfi að setja mun stífari reglur. Hér er sannarlega verið að stíga ákveðin skref en þau eru einfaldlega ófullnægjandi í þessu samhengi. Hér er því í raun og veru vísað alfarið til Fjármálaeftirlitsins að meta hvort þær tryggingar sem til staðar eru vegna viðskipta eigendanna við bankann séu fullnægjandi hverju sinni. Það getur verið dálítið hættuspil að velja þá aðferðafræði vegna þess að veð sem einn daginn geta reynst traust og áreiðanleg geta orðið harla verðlítil þann næsta. Það þekkjum við nú eftir allt það sem hér hefur á gengið. Það er nákvæmlega það sem gerðist í hruninu. Bankarnir tóku veð frá eigendum sínum sem seinna reyndust verðlítil. Þá sat bankinn uppi með gríðarlega mikið tap. Það sem þyrfti að gera í þessu efni er að taka til nánari skoðunar samspil reglna um stærð eignarhluta og viðskipti eigendanna við bankann sjálfan.

Síðan höfum við auk þessa vakið athygli á því að hér er skotið á frest umræðum um það að skilja viðskiptabankastarfsemi frá fjárfestingarbankastarfsemi og það er alveg sérstök ástæða til að velta þeim hlutum fyrir sér hér þar sem á þinginu liggur frammi frumvarp um að byggja upp nýtt innstæðutryggingarkerfi þar sem ekki verður annað séð en ríkisstjórnin vilji tryggja ríkisábyrgð á lágmarksinnstæðum í bönkum. Í fyrsta lagi að hækka lágmarkstrygginguna upp í 50 þús. evrur eins og verið er að gera í Evrópusambandsríkjunum og kveða fastar að orði um ríkisábyrgð á þeirri fjárhæð.

Vilji menn koma á ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi eða sætta sig við að hér verði starfandi innstæðutryggingarsjóður sem augljóslega um komandi framtíð mun ekki geta staðið undir lágmarkstryggingunni og við sjáum í hendi okkar strax ef eitthvað bjátar á að mun reyna á aðkomu ríkisins hvort sem það byggir á lagaskyldu eða ekki — ætli menn sér að gera það þá er eins gott að þeir hafi velt fyrir sér afleiðingum þess að leyfa fjármálafyrirtækjum að taka við innlánum og verja þeim í áhættusamar fjárfestingar. Erum við sátt við það að bankar noti innlán til þess að stunda áhættusamar fjárfestingar á sama tíma og ríkið ætlar að veita ríkisábyrgð vegna innlánanna? Það eru spurningar af þessum toga sem við höfum verið að vekja athygli á. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að fagna því að á meðan málið var í nefnd milli 2. og 3. umr. fengust þessi atriði rædd í nefndinni og það hefur síðan orðið til þess að hér er a.m.k. búið að taka saman tillögu um breytingar á frumvarpinu og bæta við nýju ákvæði til bráðabirgða sem tryggir að þessi atriði munu öll fá frekari skoðun. Eins og segir hér, með leyfi forseta, í 8. tölulið breytinganna:

„Efnahags- og viðskiptaráðherra skal skipa nefnd sem hafi það hlutverk að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, væntanlegum tillögum þingmannanefndar Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi fjármálageirans eftir fall bankanna. Nefndin skal m.a. skoða stöðu og starfsumhverfi sparisjóða, eignarhald fjármálafyrirtækja á vátryggingarfélögum og öfugt, reglur um hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtæki og hvernig verði best hægt að tryggja dreift eignarhald, og hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.“

Af þessu má augljóslega sjá að það eru grundvallaratriði sem menn hafa látið hjá líða að velta fyrir sér áður en þessu frumvarpi var teflt fram. Það gerðu menn auðvitað vitandi vits. Menn þekktu umræðuna um nauðsyn á dreifðu eignarhaldi. Menn vissu að viðskipti eigenda bankanna höfðu farið úr böndunum en komu samt sem áður ekki með stífari reglur en þær sem er að finna í þessu frumvarpi. Menn þekktu líka vandamál sparisjóðanna og öll þau atriði sem þarna eru upptalin, t.d. að allt sem lýtur að regluverki fjármálafyrirtækja er í mikilli gerjun í Evrópusambandsríkjunum og virðist ekki hafa verið tekið mikið tillit til þess sem þar er að gerast.

Samantekið vekur það mikla furðu að þetta frumvarp skuli hafa komið fram án þess að með því fylgdi skýrari framtíðarsýn. Auðvitað hefur það komið fram í umræðum hér á þinginu, sérstaklega við 2. umr., að menn teldu þetta einungis vera skref á lengri leið. En nú þegar hartnær tvö ár eru að verða liðin frá því að hrunið varð gerðum við ráð fyrir því í stjórnarandstöðu að ríkisstjórnin hefði meiri metnað en þann að koma með einhvers konar bráðabirgðatillögur sem áfanga á þeirri leið að endurreisa fjármálakerfið. Þetta er mikilvægt út frá fleiri en einni hlið málsins. Þetta skiptir máli og getur skipt grundvallarmáli vegna annarra mála, eins og ég hef rakið með innstæðutryggingarkerfið, að við séum hér að ræða í fullri alvöru að stíga það skref að veita ríkisábyrgð fyrir því. En hitt skiptir líka miklu máli sem ég kom að í 2. umr. um málið, að við þurfum að gera það upp við okkur á þessu landi, þar sem efnahagskerfi er mjög fábrotið, hvort við erum sátt við að fjármálastofnanir sem taka við innlánum frá landsmönnum og verða í krafti innlánanna með mjög sterka fjárhagsstöðu, séu stórir leikendur á fjárfestingarbankasviðinu á sama tíma.

Stór banki á Íslandi getur í krafti innlána frá landsmönnum meira eða minna stokkað upp allt viðskiptalífið þegar honum sýnist. Við sáum það auðvitað eftir einkavæðingarferlið hvernig bankarnir smám saman byrjuðu að feta sig eftir þeirri slóð að ráðskast með eignarhald á fjölmörgum opinberlega skráðum hlutafélögum. Í svona fábrotnu efnahagskerfi eins og við erum með hérna á Íslandi þá er gríðarlega stórt álitamál hvort við sættum okkur við að fyrirtæki sem hafa starfsleyfi til að taka við innlánum og hafa þessa sterku stöðu séu aðalleikendurnir á fyrirtækjamarkaðnum. Höfum það í huga í þessu sambandi að bankar geta haft hreinan hvata til að vera aðalleikendur á þessum sviðum. Þeir geta haft mikinn hvata af því að ná tökum á einstökum fyrirtækjum til þess að endurskipuleggja fjárhag þeirra og taka þóknun fyrir það, til þess að koma þeim aftur í verð til nýrra eigenda og taka þóknun fyrir það, til þess að velta eignarhlutum fram og til baka og í hvert sinn sem eitthvað gerist þá veltur inn þóknun eða einhvers konar gjald eða mögulegur hagnaður til bankans. Þetta er alþekkt og hefur birst okkur sem vandamál undanfarin ár á Íslandi, þ.e. hvernig bankarnir, markaðsviðskiptadeildir þeirra og ekki síst fyrirtækjasviðin réðu á endanum öllu í íslensku viðskiptalífi.

Nú þegar við erum að byggja á grunni hins fallna bankakerfis, erum að reisa kerfið við að nýju og skapa nýja framtíð fyrir íslenskt fjármálalíf þurfum við að horfast í augu við stærstu vandamálin og við þurfum að spyrja okkur grundvallarspurninga af þessum toga.

Í rannsóknarskýrslunni má finna mjög áhugaverða samantekt um það hvernig regluverkið á Íslandi breyttist við innleiðingu EES-tilskipananna, hvernig regluverkið breyttist sem sagt við inngöngu okkar í Evrópska efnahagssvæðið. Niðurstaðan er í raun og veru sú að við höfum innleitt Evrópureglurnar og meira og minna látið hjá líða að halda í það sem gott var í gamla íslenska lagakerfinu og huga að því hvernig við þyrftum að aðlaga viðkomandi reglur að íslenskum veruleika. Augljósasta dæmið um þetta er auðvitað tilskipun frá Evrópusambandinu sem heimilaði fjármálafyrirtækjum að lána starfsmönnum sínum til að kaupa hlutabréf í eigin félögum. Þetta ákvæði var innleitt svona meira eða minna án umræðu á Íslandi og hafði síðan í kjölfarið gríðarlega alvarlegar afleiðingar.

Nú er kominn tími til fyrir okkur að hverfa dálítið aftur í tímann, skoða það sem vel gekk upp í gamla fjármálaumhverfinu á Íslandi og það sem nýst hefur vel í hinu nýja fjármálakerfi ef svo má segja eftir inngöngu okkar í Evrópska efnahagssvæðið og tvinna þetta saman um leið og horft er til framtíðar og lært af því sem menn gera annars staðar og fyrirbyggja að annað eins hrun og önnur eins mistök og við glímum nú við geti endurtekið sig hérna á Íslandi. Þess vegna fagna ég því að þessari nefnd skuli vera komið á fót. Ég tel að við hefðum átt að skipa slíka nefnd mun fyrr. Ég horfi þannig á málið að það geti í sjálfu sér fengið hér framgang en stóru atriðin og það sem mestu skiptir fyrir fjármálamarkaðinn verði áfram í skoðun og það sé a.m.k. það sem hafi komið út úr þessari umræðu á þinginu, að við höfum komið því í traustan farveg. Að öðru leyti eru í þessu máli eins og við höfum rakið í 2. umr. nokkrar lagabreytingar sem horfa til framfara. Það er eitt og annað sem er auðvitað ágætt þó að það komi alls ekki til móts við vandann í heild sinni.