138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:17]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir málefnalega og góða ræðu. Hér er vitaskuld mjög stórt mál á ferðinni og eins gott að vandað sé til verka. Því er eðlilegt að Alþingi Íslendinga fjalli ítarlega og af vandvirkni um þetta mál. Ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þingmanns sem kom inn á nokkur veigamikil atriði, svo sem er varða dreifða eignaraðild, viðskipti eigenda með eigin veð og þá stóru spurningu hvort viðskiptabankar með ríkisábyrgð eigi að vera í fjárfestingarbankastarfsemi og þar með áhættustarfsemi. Síðastnefndi punkturinn er kannski sá sem maður veltir einna mest fyrir sér þó að hinn fyrrnefndi viðskiptaeigandi með eigin veð sé kannski sá liður í hruninu sem fór hvað verst með okkur.

Mig langar að spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson hvernig hann sjái fyrir sér einhvers konar hömlur á þessu, einnig einhvers konar hömlur á það að viðskiptabankarnir verði hér aftur aðalleikendur og ráðandi í íslensku viðskiptalífi sem út af fyrir sig kann ekkert endilega að vera heppilegt. Við lærum þar af reynslunni. Margt í okkar gamla góða bankakerfi frá fyrri árum og áratugum var mjög vandað. Þar voru bankarnir í eðli sínu nokkuð íhaldssamir og ber að horfa til þess.

Ég beini þessari spurningu til hv. þingmanns eftir hans ágætu ræðu: Hvaða hömlur sér hann á þessum veigamiklu atriðum sem varða nýja löggjöf á þessu sviði?