138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:25]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í þessa umræðu og ekki síst síðustu 30 sekúndurnar í seinna andsvari hans sem var ágætisbrýning um að við þurfum að endurskoða peningamál þessarar þjóðar og myntmálin.

Ég ætla nú eiginlega að leiða hugann hér að þeirri umræðu sem hann vakti máls á með þessi álitamál sem eru uppi um aðskilnað á starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Nefndin fjallaði nokkuð ítarlega um þetta mál á öllum stigum úrvinnslu sinnar og það verður að segjast eins og er að það eru nokkuð skiptar skoðanir um þetta málefni. Ég verð að viðurkenna fyrir mitt leyti að ég hef sjálfur ekki komist á skoðun um hvort huga beri að aðskilnaði fjárfestingarbanka og viðskiptabanka eða ekki.

Við í meiri hlutanum teljum hins vegar að svo komnu máli að ekki sé rétt að leggja til breytingar í þessa veru. Ástæðan er einkum sú að í frumvarpinu er tekið á fjölmörgum þeim ágöllum sem eru í þessari samþættingu fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, t.d. með banni við lánveitingum með veði í eigin bréfum, með strangari reglum um lánveitingar og viðskipti við hvers konar tengda aðila. Þá ber einnig að hafa í huga að ekkert þeirra landa sem við berum okkur saman við, hvort sem þau eru austan hafs eða vestan, hefur breytt regluverki sínu í þá átt að aðskilja beri þessa starfsemi. Þá er kannski réttast fyrir okkur, og ég er eiginlega hingað kominn til þess að lýsa yfir mínum áhuga og vilja til þess, að þessi umræða verði dýpkuð, tekin lengra á vettvangi þingsins eða fyrir utan þing þannig að við áttum okkur á því hvaða stefnu við viljum marka hér á landi í þessa veru.