138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:29]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil líka segja í þessari umræðu að það er ekki mín skoðun að það eigi að vera fullkomin ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðnum eins og við erum að reyna að teikna hann upp. Að vissu leyti er þetta flókið mál því að við tökumst á við syndir forfeðra okkar hér í þessum sal og verðum að stíga varlega til jarðar. Fullkomin ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi er ekki sú framtíðarsýn sem við viljum. Þess vegna hljótum við að leita leiða til að losna undan þeirri ríkisábyrgð sem nú er uppi og breyta þeirri framtíðarsýn.

Mig langar líka að vekja athygli í þessari umræðu á breytingu sem meiri hluti viðskiptanefndar leggur til og tengist þeirri umræðu sem hv. þingmaður minntist á um tengsl bankanna við atvinnulífið. Við leggjum hér til þá viðbót að þegar bankarnir yfirtaka fyrirtæki, skuli endurskipulagningu fjárhags vera lokið innan 12 mánaða. Fjármálastofnanir geta sótt um lengri tímafrest og verða þá að rökstyðja það mjög ítarlega hvað snertir fjármálalega þætti, en það er Samkeppniseftirlitið sem tekur á þeim í samkeppnislögum.

Ég vil svo ítreka það á þessari síðustu hálfu mínútu sem ég hef til umráða að við í meiri hlutanum teljum margt gott í þessu frumvarpi sem ber að samþykkja á þessu sumarþingi. Við erum ekki búin að ljúka vinnu okkar við endurskipulagningu á fjármálakerfinu, hvort sem frekari breytingar muni líta dagsins ljós í haust eða vetur eða næsta vor, við erum hér að styrkja mjög mikið valdheimildir Fjármálaeftirlitsins. Við erum að búa til útlánaskrá um áhættuskuldbindingar. Við erum að taka á lánveitingum til tengdra aðila. Við erum að taka á hæfi eigenda og fjölmörgum öðrum mikilvægum málum sem eru vissulega lærdómur sem við höfum dregið af reynslu okkar.