138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans og skýringar hér. Það má út af fyrir sig taka undir með þingmanninum að það er margt sem horfir til framfara í þessu máli sem ber að samþykkja, en meginatriðið er samt að það er of skammt gengið og síðan hitt að við í Sjálfstæðisflokknum stöndum eiginlega alveg á gati þegar við sjáum þetta mál. Eftir allt það sem sagt hefur verið, eftir alla gagnrýnina sem við höfum mátt sæta allt frá einkavæðingu bankanna og í gegnum alla umræðuna um hrunið og rannsóknarskýrsluna og allt það sem hér hefur gerst þar sem menn hafa tiltekið hvert atriðið á fætur öðru um það sem hefði átt að vera í lagi og var, eftir því sem menn halda fram, á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins. Eftir alla þessa umræðu koma menn hér með frumvarp sem er sérstaklega tiltekið að byggi á niðurstöðu finnska sérfræðingsins vegna hrunsins og láta hjá líða að fjalla um eignarhaldið sem við vorum gagnrýnd fyrir að tryggja ekki að væri dreifðara. Menn láta hjá líða að setja stífar reglur um viðskipti eigenda við bankana, þótt menn stígi eitthvað skref þar geri ég lítið úr því. Menn láta hjá líða að taka á stóru álitaefnunum eins og þeim sem við höfum verið að ræða hér og menn hafa ekki einu sinni enn þá upplýst um það almennilega hverjir eru eigendur nýju bankanna. Öll grundvallaratriðin sem við höfum mátt sæta gagnrýni fyrir liggja því enn hér án þess að fengist hafi svör við þeim eftir umræðu um þetta frumvarp.