138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[20:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Síðan umræðu um þetta mál var frestað hér fyrr í vikunni hefur allsherjarnefnd haft tækifæri til þess að velta fyrir sér hugmyndum að breytingum á þessu máli. Í breytingartillögum sem liggja fyrir þinginu, komu að ég hygg inn í dag, sjást þess merki að sumt af því sem við í Sjálfstæðisflokknum töluðum fyrir í 2. umr. um málið hefur hlotið góðan hljómgrunn, sérstaklega það sem snýr að því að leita annarra leiða til að hafa samráð við fólkið í landinu um hvaða meginsjónarmið eigi að liggja endurskoðun stjórnarskrárinnar til grundvallar.

Ég vil taka fram að eftir sem áður erum við í Sjálfstæðisflokknum andvíg hugmyndinni um stjórnlagaþing vegna þess að við sjáum engan sérstakan tilgang í því að kalla það saman þegar þjóðfundur hefur verið haldinn. Við teljum að þingið og nefnd sem fengi það hlutverk að undirbúa breytingar á stjórnarskránni geti með mjög góðu móti, og svipuðu sniði og stjórnarskrárnefndin sem síðast starfaði gerði, haft gott samráð við fólkið í landinu, efnt til málþinga, gefið fólki kost á að senda inn erindi og borið undir þjóðfund, eða eftir atvikum með öðrum hætti almenning í landinu, þau álitaefni sem menn eru fyrst og fremst að taka til skoðunar.

Ég vil láta þess getið hér í þessari seinni ræðu minni að mér finnst málið vera að taka jákvæðum breytingum en ég er ekki sáttur við það í heild sinni.

Hér er komin fram breytingartillaga frá meiri hluta allsherjarnefndar um að kosin verði sjö manna nefnd og að þjóðfundurinn fari fram. Ég held að það sé heillaskref. Ég tek undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni sem fyrr í dag fjallaði um að breytingarnar geri málið mun markvissara og ferlið allt skilvirkara. Það er búið að fella málið í mun traustari farveg með því að tryggja að fyrir umræðu stjórnlagaþingsins verði tekið saman frumvarp til breytinga á stjórnarskrárlögunum í stað þess að stjórnlagaþingið komi saman með óskrifað blað.

Enn held ég til haga að ég hefði að sjálfsögðu viljað að frumvarpið sem sérfræðingahópurinn, hin sjö manna nefnd, mun skrifa kæmi beint til Alþingis. Rökin fyrir því hafa margoft komið fram hjá okkur. Þau eru í fyrsta lagi þau að þingið mun hvort eð er á endanum fjalla um málið. Í öðru lagi er stjórnlagaþingið í eðli sínu ekkert ólíkt Alþingi. Það stendur til að kjósa fólk af landinu öllu til að sinna þessum störfum, þ.e. að taka saman drög að máli eða semja frumvarp sem á endanum verður teflt fram á þingi.

Ég vil hafa það alveg kristaltært á þessum tímapunkti málsins að ég mun taka sjálfstæða afstöðu til allra efnisatriða í því frumvarpi sem ratar á endanum til Alþingis. Með því að fara í gegnum þetta ferli erum við að leitast við að geta á endanum teflt fram á Alþingi frumvarpi sem á sér góðan og traustan stuðning í samfélaginu þar sem þau sjónarmið sem helst hafa verið til umræðu vegna endurskoðunar stjórnarskrárinnar hafa fengið að njóta sín. Síðan verður að koma í ljós hvernig til tekst. Án vafa verður tekist á um það þegar málið kemur til kasta þingsins í framtíðinni. Án vafa verður tekist á um einstök atriði. Ég vil að það sé alveg á hreinu að þrátt fyrir þennan feril sem er verið að teikna hér tel ég mig ekki skuldbundinn í einu eða neinu til að hlíta þeirri niðurstöðu sem þannig fæst. Við þurfum að halda í sannfæringu okkar hér á þinginu í þessu máli eins og öllum öðrum.

Enn ein ástæða þess að málið hefur tekið jákvæðum breytingum er sú að mjög hefur verið dregið úr starfstíma stjórnlagaþingsins. Áður átti þingið að starfa í meira en hálft ár, allt að átta mánuði ef ég man rétt, en með því að undirbúa málið vel áður en stjórnlagaþingið tekur til starfa er hægt að stytta starfstíma þess verulega. Af því verður mikill sparnaður og málið allt miklu markvissara í vinnslu. Það er í sjálfu sér jákvæð breyting þó að ég sjái engan sérstakan tilgang í því að efna til stjórnlagaþings áður en málið kemur hingað.

Mér finnst frumvarpið eins og það liggur fyrir þinginu gefa til kynna að jafnvel stærstu grundvallarspurningarnar séu undir í vinnunni fram undan. Mér finnst engin ástæða til að velta öllum þeim spurningum upp. Mér finnst til dæmis engin ástæða til að velta því upp hvort við ætlum að byggja áfram á þrískiptingu ríkisvaldsins, en jafnvel slík atriði virðast eiga að koma til skoðunar samkvæmt frumvarpinu sjálfu.

Hins vegar má velta fyrir sér hvort við ætlum áfram að byggja á þingræðisreglunni. Mér finnst sjálfsagt að taka það til umræðu. Ég hef sjálfur verið þeirrar skoðunar að það væri skynsamlegt og hafi reynst vel. Það þýðir ekki að það megi ekki skilja frekar á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, þingræðisreglan getur engu að síður lifað áfram. Af sömu ástæðu finnst mér ekki tilefni til að fara ofan í aðra grundvallarþætti. Þá má auðvitað láta þess getið hér að sumt af því sem er í stjórnarskránni er tiltölulega nýlegt, eins og mannréttindakaflinn.

Eitt af stóru atriðunum sem kemur í hlut þeirra sem munu taka saman frumvarp til nýrra stjórnarskipunarlaga, eða til breytinga á stjórnarskránni, er hlutverk forsetaembættisins. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvort einhverjar skýrar vísbendingar koma frá þjóðfundi, eða stjórnlagaþingi ef málið endar þannig, um hvert hlutverk forsetaembættisins á að vera. Um það hefur nokkuð verið deilt. Það má segja að núgildandi stjórnarskrá skilji eftir töluvert mikið tómarúm um ýmis atriði og það tómarúm hefur núverandi forseti nýtt sér til hins ýtrasta og fyllt út í það hlutverk sem segja má að hafi verið skilið eftir nokkuð óskilgreint í stjórnarskránni. Þannig hefur forsetinn líka um margt farið gegn þeirri venju og þeim hefðum sem hafa myndast í því efni. Við endurskoðun stjórnarskrárinnar er augljóslega nauðsynlegt að taka kaflann um forsetaembættið til skoðunar, m.a. vegna þessara atriða en ekki síður vegna þess sem snertir samskipti framkvæmdarvalds og forsetans, hvenær forsetinn er sjálfstæður í embættisfærslum sínum og hvenær hann á einungis að framkvæma vilja ráðherra (Forseti hringir.) og fara að fyrirmælum þeirra í þeim tilvikum þegar forsetinn er einungis að framfylgja vilja ráðherranna. Þetta þarf að skýra betur og skerpa á ábyrgðinni.