138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[20:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Okkur sjálfstæðismönnum hefur gjarnan verið legið á hálsi fyrir að stunda einhvers konar málþóf. Þetta mál hefur verið nefnt í þeim efnum. Okkur verður þó ekki kennt um að hér hafi ekki verið afgreidd mikilvæg mál á undanförnum dögum, við höfum lýst því yfir og stöndum við það að við erum reiðubúin til allra góðra verka. Í vikunni lukum við t.d. máli um gagnaver á Suðurnesjum sem ég tel ákaflega mikilvægt að náðist í gegn. Það er ljóst að það hefði t.d. ekki náðst í gegnum atkvæðagreiðslu nema fyrir stuðning Sjálfstæðisflokksins. Þetta segir okkur, virðulegi forseti, að forgangsröðun stjórnarflokkanna í þeim ágreiningsmálum sem hér eru tekin til umfjöllunar er kolröng og snýr allt of mikið að málum eins og þessu hér sem má gefa meiri tíma. Í sjálfu sér breytir það ekki miklu fyrir samfélagið þó að gefinn sé meiri tími til vinnslu og undirbúnings málsins en raun ber vitni. Í stað þess mundum við einbeita okkur að þeim málum sem skipta máli þegar kemur að hagsmunum heimilanna og fyrirtækjanna í landinu.

Á þeirri forsendu hefðum við kosið að fresta umfjöllun um þetta mál og fresta þeim breytingum sem hér eru til umræðu og taka strax á dagskrá þau mál sem snúa að atvinnusköpun og velferð heimilanna. Hér er um að ræða ákveðið grundvallarmál og við þurfum að gefa því tíma í gagnrýni og málefnalega umræðu.

Varðandi hugmyndir um stjórnlagaþing undirrita þingmenn drengskaparheit að stjórnarskránni og heita því að verja hana. Í þessu frumvarpi eru þingmenn í raun að afsala sér stjórnarskrárbundnum skyldum sínum, stjórnarskrárvaldinu. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir nefndi það í ræðu sinni um þetta mál fyrr í vikunni að það væri nær að almenningur veldi þá sem um þetta mál eiga að fjalla, veldi sér stjórnlagaþing, en þingið veldi ekki til þess fólk sem alltaf er dregið úr sama potti. Ég vil gera athugasemdir við þessi ummæli hv. þingmanns og nefna nýlegt dæmi þar sem vel tókst til í þessum efnum, rannsóknarnefnd Alþingis. (Gripið fram í.) Almennt virðist vera sátt um störf hennar, þing og þjóð virðast almennt vera sátt við þá niðurstöðu og þá miklu vinnu sem þar fór fram. Það fólk sem í þá vinnu fór var valið af Alþingi og um það var víðtæk sátt. Því voru gefnar þær heimildir sem það þurfti til þess að vinna vinnu sína eftir bestu getu.

Miðað við orð hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur eru þingmenn að flýja stjórnarskrárbundið hlutverk sitt. Það má líka túlka það þannig að þeir treysti sér ekki til að takast á við vandamálið og reyna að leysa það. Það er ákveðin eftirgjöf í því af hálfu þingsins og ábyrgðarleysi að nálgast málið þannig. (Gripið fram í.)

Stjórnarskráin heimilar ekki öðrum en þjóðkjörnum fulltrúum að fjalla um breytingar á stjórnarskránni. Það er okkar stjórnarskrárbundna hlutverk. Vinnubrögð sem þessi grafa undan virðingu fyrir Alþingi og í raun fyrir stjórnarskránni með sama hætti. (Gripið fram í.)

Vinnubrögðin sem hafa verið viðhöfð við þetta mál brjóta allar vinnureglur. Er skemmst að minnast þeirrar umræðu sem var um breytingar á stjórnarskránni á þinginu í fyrravor þar sem keyra átti í gegn með miklu offorsi ákveðnar breytingar með vinnubrögðum sem áttu sér ekki fordæmi. Meginreglan í allri vinnu, ekki bara á Íslandi, heldur alls staðar þar sem þingin fara með það vald sem við förum með hér, er sú að leita sátta (Gripið fram í.) og gefa málinu mjög góðan tíma. Vinna við breytingar á stjórnarskrá tekur jafnvel einhver ár. Það er gríðarlega mikilvægt þegar verið er að fjalla um grundvallarlöggjöf þjóða að slíku máli sé gefinn góður umþóttunartími og fanga leitað víða.

Hér hefur átt að keyra þetta áfram, brjóta allar þessar hefðbundnu vinnureglur um eins þverpólitíska samstöðu og hægt er að ná og þann tíma sem svona veigamiklum breytingum er gefinn. Það er ekki hægt að meta það öðruvísi en að tími sátta sé bara í orði en ekki á borði, eins mikið og þessi hæstv. ríkisstjórn talar um að reyna að hafa málin í sátt, þingmenn meirihlutaflokkanna koma meira að segja í fjölmiðla og kalla eftir víðtækari sátt en verið hefur. Þetta er eitt dæmi um það. Annað dæmi er vatnalagafrumvarpið sem tekið var út með miklu offorsi í iðnaðarnefnd í morgun þrátt fyrir mikinn ágreining. Þar erum við að fjalla um mál sem kallaði á einhverja mestu umræðu seinni tíma á Alþingi. Eftir þá umræðu og lagasetninguna árið 2006 setti þáverandi ríkisstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna það mál í ákveðinn farveg til að ná um það þverpólitískri sátt. Það var samþykkt að fresta gildistöku laganna meðan sérstök þverpólitísk nefnd færi yfir málið. Sú nefnd skilaði ítarlegri 250 blaðsíðna skýrslu á haustdögum árið 2008 og niðurstaða hennar var að annað frumvarp skyldi unnið og lagt hér fram og ætti að leysa af hólmi lögin frá 2006. Ég ítreka, virðulegi forseti, að það er eins og að tími sátta hjá þessari ríkisstjórn sé ekki uppi á borðinu þrátt fyrir að stjórnarþingmenn og hæstv. fulltrúar ríkisstjórnarinnar klifi alltaf á einhverju öðru.

Hér erum við í miklum efnahagslegum hremmingum. Við þurfum að draga úr kostnaði eins og mögulegt er, sérstaklega af hálfu hins opinbera. Þegar kemur að hugarfóstrum ráðherra, og í þessu tilfelli hæstv. forsætisráðherra, virðist kostnaðurinn ekki skipta máli lengur. Það er ekki ólíklegt að ef hugmyndir ríkisstjórnarinnar hefðu náð óbreyttar fram að ganga værum við að tala um kostnað upp á 500–1.000 millj. kr. Það má gera ýmislegt fyrir þá upphæð. Þetta er óásættanlegt og það á sama tíma og við erum að að fara óhefðbundna leið sem er ekki í samræmi við stjórnarskrá landsins. Það hefur margt breyst í samfélagi okkar, virðulegi forseti, en það er ekki stjórnarskránni að kenna. Stóðst ekki stjórnarskráin, og stenst, í meginatriðum? Þeir þættir sem við erum að tala um í breytingaferlinu koma ekki endilega beint að því hruni sem hér varð.

Ég ítreka þá skoðun okkar sjálfstæðismanna að við erum tilbúin í þessa vegferð, við erum tilbúin í þá vinnu að skoða stjórnarskrána en bara ekki með þeirri aðferðafræði sem ríkisstjórnin ætlar að bjóða upp á í þessu tilfelli.

Það ferli sem var viðhaft á vordögum fyrir ári var gagnrýnt mjög af okkar helstu lögspekingum. Ég rifja upp ummæli Ragnhildar Helgadóttur, prófessors í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík, þar sem hún segir þá skoðun sína, með leyfi forseta, „að með því að naumur meiri hluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálanna. Þess má þá vænta að næsti meiri hluti geri þær breytingar sem honum hugnast án þess að takmarka sig við það sem næst almenn sátt um á þingi og þannig koll af kolli. Þannig getur stjórnarskráin orðið óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun“.

Mig langar einnig að vitna í Sigurð Líndal, prófessor emeritus í lögfræði, en hann segir, með leyfi forseta:

„Annars get ég ekki dulið þá skoðun mína að ólíklegt sé að stjórnlagaþing skipað 41 manni valdi þessu verkefni. Líklegast er að þingið þróist yfir í eins konar umræðufund og þrætusamkomu sem sökkvi niður í deilur sem engu skili.“

Eins og ég sagði er enginn ágreiningur um það meginmál af hálfu Sjálfstæðisflokksins að fara í þetta ferli og fara í breytingar á stjórnarskránni. Við viljum bara fara aðrar leiðir. Af hálfu Sjálfstæðisflokksins hafa komið fram mjög áhugaverðar hugmyndir um það hvernig megi nálgast þjóðarþátttöku í þeirri vinnu þar sem við höfum lagt til að boðað verði til einhvers konar þjóðfundar. Það geta verið allt að 2.000 manns sem hittast í þann tíma sem þurfa þykir, hvort sem það er einn dagur, tveir eða þrír. Fyrir þann fund verði helstu sérfræðingar okkar, sem fengnir verða til þess verks af hálfu Alþingis, búnir að undirbúa hann og draga fram þau helstu álitamál sem þar þarf að ræða. Það hleypir miklu stærri hluta þjóðarinnar að þessu borði til að koma skoðunum sínum á framfæri. Það er miklu líklegra til að skila okkur árangri en tiltölulega fámennur hópur sem valinn verður og mun kosta mjög mikið í rekstri. Ég held að við séum að gefa þjóðinni þar miklu betra og eðlilegra tækifæri til að koma að þessari vinnu og þátttöku í þessu ferli með okkur.

Fjöldamörgum spurningum er enn ósvarað um það stjórnlagaþing sem ríkisstjórnin vill boða til. Það er óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að málið hafi verið sett fram í miklu óðagoti og taugaveiklun á síðustu dögum þingsins. Þetta er vissulega búið að vera í umræðu í nokkuð langan tíma en þetta mál kemur hér fram á síðustu metrunum og það á að keyra það í gegn.

Á meðan liggja til hliðar þau málefni sem snúa að atvinnulífi og heimilum þessa lands þrátt fyrir öll fögru loforðin og fyrirheitin sem þar hafa verið gefin. Við erum að lesa um það í blöðunum núna að hætta sé á að eitt af stóru málunum sem átti að verða til að blása lífi í atvinnu, framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun sem urðu að gerast í sumar til að hægt væri að halda áfram því ferli næsta vetur, frestist um eitt ár. Það er ekki verið að ræða þetta hér, hvernig við getum brugðist við slíkum málum og hvernig við getum komið í veg fyrir að slíkir atburðir hendi og reynt að koma hjólum atvinnulífsins áfram. Nei, tímanum er eytt í mál sem þetta hér, sem er sjálfsagt að fara í en er sjálfsagt að gefa líka þann tíma sem þarf og á náttúrlega alls ekki að vera í þeim forgangi sem það er sett í.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn er mjög tilbúinn að fara af stað í þá vinnu og vegferð. Ég held að sú leið sem við höfum lagt til að málið fari í sé mjög til bóta. Ég vona að við og stjórnarflokkarnir getum sameinast um að einhvers konar þjóðfundur, með þátttöku fjölda fólks, allt að 2.000 manns, sem væri valið með einhverju slembiúrtaki alls staðar að af landinu, komi að því í ákveðinn tíma til að ræða með okkur þær breytingar og þær áherslur sem þarf að leggja og að við vinnum síðan úr því, að það sé miklu líklegra til að skila okkur áfram og alveg klárlega miklu ódýrara á þessum erfiðu tímum.