138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[10:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um það hvort við felum Fjármálaeftirlitinu að kanna og birta með fullnægjandi hætti hverjir eru eigendur krafna og þar með hverjir eru eigendur bankanna. Við erum búin að ræða þetta mikið í hv. viðskiptanefnd. Við sjálfstæðismenn erum búin að reyna að fá það fram núna í rúmlega hálft ár hverjir eru raunverulegir eigendur hinna einkavæddu banka og ef við samþykkjum þessa tillögu er skylt að því verði fylgt eftir að við fáum að vita hverjir eiga bankana. Við erum búin að ræða mjög mikið um það að leyndarhyggjan (Forseti hringir.) í viðskiptalífinu hafi skemmt ýmislegt fyrir okkur. Nú reynir á, erum við tilbúin til að beita okkur fyrir því að við fáum að vita hverjir eiga hina nýeinkavæddu banka?