138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[10:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég er nú í ákveðnum vanda þar sem ég má ekki ræða efnislega þá tillögu sem ég er að greiða atkvæði um samkvæmt úrskurði forseta áðan. Ég ætla nú að gera það samt. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Þetta er ekki mikill vandi.)

Hér er verið að ræða um að fresta vandanum, setja málið í nefnd sem er svo sem ágætt en það eru engin tímamörk á þeirri nefnd. Og miðað við aðgerðaleysi hæstv. ríkisstjórnar mun þetta taka einhver ár. Á meðan gengur allt áfram, óþekktir eigendur eru að bönkunum o.s.frv. Það sem þessi nefnd ætti að gera númer eitt, tvö og þrjú væri að auka traust á stofnbréfum og hlutabréfum þannig að það sé einhver minnsti möguleiki á að selja stofnbréf sparisjóða og selja hlutabréfin í fyrirtækjunum sem bankarnir eiga. Það er það sem vantar. Ég skora á þá nefnd sem tekur þetta að sér að vinna að því að auka traust með því að auka gagnsæi í eignarhaldi fyrirtækja alla leið upp úr, það er það sem vantaði inn í þetta frumvarp. Þetta er nefnilega smátt hænuskref. Ég segi samt já við því.