138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[10:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra að allir þingmenn eru sammála um að það frumvarp sem er að verða að lögum sé til mikilla bóta. (Gripið fram í.) Það bætir regluverkið og styrkir það og dregur umtalsvert úr áhættu í kerfinu. Laga- og regluverk um fjármálastofnanir er í mótun og endurskoðun, bæði austan hafs og vestan, og að sjálfsögðu þurfum við að fylgjast með því og taka mið af því sem þar gerist, enda samningsbundin til þess að miklu leyti að fylgja evrópskum reglum í þessum efnum.

Það er einnig alveg sérstaklega ánægjulegt að það er gjörbreyttur andi í umræðum um þetta hér og samanber þá breytingartillögu sem var samþykkt áðan eru allir þingmenn sammála um að halda þessu verki áfram og skoða á næstu árum hvort grípa þurfi til frekari aðgerða til að styrkja lagaumhverfið um fjármálastofnanir og draga enn frekar úr áhættu í kerfinu þannig að þau ósköp sem hér gerðust fyrir tveimur árum á vakt Sjálfstæðisflokksins endurtaki sig aldrei.