138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[11:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég styð þessa tillögu að sjálfsögðu sem skattalækkun, en það er dálítið undarlegt að ríkisstjórnin skuli fyrst skattleggja atvinnulífið alveg undir drep, hækka tryggingagjaldið þannig að hver starfsmaður verði miklu, miklu dýrari en hann var áður, og fari svo að lokka menn til baka í fjárfestingar. Hún hefur heldur ekki gert neitt til þess að auka traust manna á fjárfestingum yfirleitt sem hafa verið í lamasessi eftir að 50 þúsund hlutafjáreigendur og einhver þúsund stofnfjáreigenda töpuðu öllu sínu. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að auka traust á þessu og gerir ekkert í því. Hún jók skattlagningu á atvinnulífið og nú ætlar hún að lokka menn í áhættufjárfestingar með þessum hætti, með því að veita skattafslátt. Ég vara við slíkri stefnu. Ég vara við henni og ég get ekki séð að nokkur maður fjárfesti í nýfjárfestingum (Forseti hringir.) eftir þau áföll sem menn hafa orðið fyrir. Ég segi já.