138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[11:24]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég stillti mig um að taka til máls í umræðunni í gær til að lengja ekki þingfund svo ég vil leyfa mér að koma hér í atkvæðaskýringu og lýsa ánægju minni með þann mikilvæga áfanga sem nú er að nást í átt til stjórnlagabreytinga og stjórnlagabóta að ég tel. Ég tel að málið hafi tekið farsælum breytingum í meðförum nefndarinnar. Þar hefur tekist að sætta andstæð sjónarmið og setja þau í lausnamiðaðan farveg, vandaðan farveg. Málið verður unnið að viturra manna ráði og þess jafnframt gætt að íslenskur almenningur eigi aðkomu að vinnunni með þjóðfundi og síðan fulltrúa á sjálfu stjórnlagaþinginu. Ég tel því að lýðræðiskröfunni sé fullnægt. Málið er unnið í sátt, það er fagnaðarefni og ég tel að þetta sé fyllilega ásættanleg niðurstaða. Ég óska Alþingi Íslendinga til hamingju með að vera þó að komast að þessari niðurstöðu. Ég segi já við heildarafgreiðslu frumvarpsins.