138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[11:26]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna þessari framvindu mála. Málið hefur tekið miklum breytingum til batnaðar og það er gott að náðst hefur víðtækari sátt í allsherjarnefnd og á þingi um málið. Það er mjög mikilvægt að svona mál fari ekki fram á hreinum meiri hluta stjórnarþingmanna.

Mig langar hins vegar að vekja athygli þingheims á því sem ég hef orðið var við í samtölum við suma þingmenn og ráðherra varðandi skilning þeirra á því hvað þjóðaratkvæðagreiðsla er, hverju hún á að skila og hvers eðlis hún er. Mér virðist sem svo að margir þingmenn og ráðherrar séu þeirrar skoðunar að hugmyndir manna um þjóðaratkvæðagreiðslu á 19. öld þar sem kóngurinn ákvað með hvaða hætti hún ætti að fara fram séu enn við lýði á Íslandi. Við lifum hins vegar á árinu 2010 og þeir dagar að kóngurinn eigi að ákveða með hvaða hætti þjóðaratkvæðagreiðsla skuli vera eru liðnir. Við þurfum að hugsa þetta mál á ferskan hátt.