138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[11:28]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Mismunandi sjónarmið hafa verið uppi innan þings og utan um stjórnlagaþingið, fyrirkomulag þess og þar með hvernig staðið skuli að breytingum á stjórnarskrá Íslands, hvert skuli vera samspilið á milli stjórnlagaþingsins og Alþingis og síðan að sjálfsögðu þjóðarinnar sjálfrar. Í ljósi þess ágreinings sem uppi hefur verið og mismunandi áherslna tel ég að mjög vel hafi til tekist. Ég vil þakka allsherjarnefnd og formanni hennar fyrir hvernig staðið var að málum á síðustu metrunum til að stuðla að sátt um málið.

Tvö fulltrúaþing koma til með að kallast á um þessar breytingar, stjórnlagaþingið og Alþingi Íslendinga, sem einnig er fulltrúaþing, og síðan (Forseti hringir.) er tryggð aðkoma þjóðarinnar. En það er látið í hendur stjórnlagaþingsins að ákveða hvernig háttað skuli aðkomu hennar að málinu. Úrslitavaldið á að sjálfsögðu að liggja (Forseti hringir.) hjá þjóðinni því að þetta er stjórnarskráin hennar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)