138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:35]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um iðnaðarmálagjald, ásamt síðari breytingum, og um ráðstöfun gjaldsins árið 2010.

Í frumvarpinu er lagt til að lögum um iðnaðarmálagjald verði breytt á þann veg að gjaldið verði síðast lagt á árið 2010 vegna rekstrarársins 2009. Tilefni þess að ráðist var í endurskoðun á lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, er dómur Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll þann 27. apríl síðastliðinn. Málið var höfðað gegn íslenska ríkinu af iðnaðarmálagjaldskyldum aðila sem ekki á aðild að Samtökum iðnaðarins.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um ró í salnum og þögn, gefa ræðumanni hljóð.)

Þakka þér fyrir það, virðulegi forseti. Það var orðið ansi erfitt að hrópa yfir hópinn.

Málið var höfðað gegn íslenska ríkinu af iðnaðarmálagjaldskyldum aðila sem ekki á aðild að Samtökum iðnaðarins. Kæran laut í meginatriðum að því að álagning iðnaðarmálagjalds bryti gegn rétti kæranda til að standa utan félaga samkvæmt 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og skoðanafrelsi samkvæmt 10. gr. og fæli í sér ólögmæta skattlagningu sem bryti gegn 1. gr. I. viðauka við sáttmálann og fæli í sér mismunun sem væri andstæð 14. gr. sáttmálans.

Í niðurstöðu sinni leysti dómstólinn aðeins úr kærunni á grundvelli 11. gr. en taldi ekki þörf á því að meta hvort önnur ákvæði sáttmálans hefðu verið brotin. Dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að sú gjaldtaka sem felst í iðnaðarmálagjaldinu felist í takmörkun á rétti kæranda samkvæmt 11. gr. mannréttindasáttmálans og var þar einkum vísað til þess að kærandi væri með lögum skyldaður til þess að greiða gjald til samtaka á vettvangi einkaréttar sem hann hefði ekki sjálfur valið að ganga í. Einnig var vísað til þess að gjaldinu væri varið til hagsbóta fyrir allan iðnað í landinu, væri sýnt að aðilar að Samtökum iðnaðarins nytu meira hagræðis af því en önnur samtök á vettvangi iðnaðar.

Að þessari niðurstöðu fenginni, virðulegi forseti, kannaði dómstóllinn hvort þessa takmörkun mætti réttlæta með vísan til 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans, þ.e. hvort hún hefði lagaheimild, stefndi að réttmætu markmiði og teldist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi.

Óumdeilt var að gjaldtakan ætti stoð í lögum og var um það vísað í 1.–3. gr. laganna um iðnaðarmálagjald. Þá féllst dómstóllinn einnig á röksemdir íslenska ríkisins um að takmörkunin stefndi að réttmætu markmiði, þ.e. að vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu.

Hvað varðar þriðja atriðið, nauðsyn takmörkunarinnar, tók dómstóllinn undir að það væri yfirlýst markmið íslenska löggjafans að efla iðnað í landinu með þessum hætti, þ.e. að fela tilteknum samtökum heimild til að verja gjaldinu til sameiginlegra hagsmuna iðnaðarins í stað þess að úthluta því til margra smærri aðila. Á hinn bóginn átelur dómstóllinn einkum þrennt varðandi útfærslu á nýtingu gjaldsins. Í fyrsta lagi skilgreiningu laganna á því hvernig iðnaðarmálagjaldinu skuli varið, þ.e. til að „vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu“, að það væri of opið og of óljóst. Í öðru lagi sé gjaldið ekki nægilega skýrt og aðgreint frá fjárreiðum samtakanna og í þriðja lagi sé opinbert eftirlit með því hvernig gjaldinu er varið ekki nægilega skýrt og skilvirkt.

Almennt er talið að þessi dómur leiði ekki til þeirrar niðurstöðu að álagning iðnaðarmálagjalds sé með öllu óheimil og að sá möguleiki sé fyrir hendi að breyta lögum um iðnaðarmálagjald til samræmis við aðfinnslur Mannréttindadómstóls Evrópu. Þrátt fyrir það er í frumvarpinu lagt til að gjaldtökunni verði hætt að lokinni álagningu opinberra gjalda árið 2010. Sú niðurstaða helgast einkum af því að það er nokkuð útbreidd skoðun að rétt sé að hætta gjaldtökunni í því formi sem nú er og þannig hafa Samtök iðnaðarins sjálf beint þeim tilmælum til iðnaðarráðuneytisins að lagt verði til að gjaldtökunni verði hætt og fleiri samtök í iðnaði hafa lýst sömu skoðun.

Við samningu frumvarpsins var haft samráð við ýmsa aðila. Má þar nefna Samtök iðnaðarins, Meistarafélag húsasmiða, fjármálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og skattyfirvöld. Afrakstur þeirrar vinnu er að finna í frumvarpinu sjálfu þar sem lagt er til að lögum um iðnaðarmálagjald verði breytt með þeim hætti að við lögin bætist bráðabirgðaákvæði þess efnis að iðnaðarmálagjald verði síðast lagt á gjaldskylda aðila vegna rekstrarársins 2009. Það er, virðulegi forseti, að hluta til praktískt atriði vegna þess að sú innheimta er þegar hafin á þessu ári. Það gjald sem innheimtist vegna þessa árs rennur síðan í ríkissjóð og tekjunum skal varið til verkefna á sviði iðnaðar, nánar tiltekið í menntunar- og nýsköpunarverkefni á sviði iðnaðar. Um ráðstöfunina verður síðan nánar fjallað í fjárlögum.

Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.