138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:57]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Þegar íslenska ríkið var dæmt af Mannréttindadómstóli Evrópu þann 27. apríl 2010 fyrir að brjóta gegn mannréttindum borgara þessa lands varð ljóst að ríkisstjórnin varð með einhverjum hætti að bregðast við. Þegar þessi dómur féll sáum við, nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, okkur knúna til þess að krefja ríkisstjórnina svara um það hvernig hún hygðist bregðast við því að íslenska ríkið hefði verið dæmt fyrir að brjóta mannréttindi á borgurum landsins.

Ríkisstjórnin hefur nú brugðist við með því að leggja fram frumvarp til laga um breyting á lögum um iðnaðarmálagjald. Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu er tilefni þess að ráðist var á endurskoðun á lögum um iðnaðarmálagjald dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um iðnaðarmálagjald frá 27. apríl 2010. Þar segir að í dómnum sé „komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmd laga um iðnaðarmálagjald sé í andstöðu við 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu“. Sú grein fjallar um félagafrelsi og rétt manna til að standa utan félaga sem þeir kæra sig ekki um að vera aðilar að eða hluti af. (Gripið fram í.) Þetta ákvæði mannréttindasáttmálans kallast á og er sambærilegt við ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.“

Það er með þessum síðustu orðum sem t.d. skylduaðild manna að Lögmannafélagi Íslands er réttlætt, þ.e. það félag er talið sinna hlutverki sem varðar almannahagsmuni og ekki síður réttindi annarra, þ.e. þeirra skjólstæðinga sem lögmenn starfa fyrir. Iðnaðarmálagjaldið snýr ekki að lögmönnum, það snýr að þeim sem stunda iðnað. Eins og á hefur verið bent hefur það verið gagnrýnt að þeir sem starfa við iðnað séu skattlagðir sérstaklega með þessu gjaldi af því að þetta er skattur í skilningi laga sem og í skilningi stjórnarskrár. Sömuleiðis hefur það verið gagnrýnt að sjónarmið um félagafrelsi séu ekki nægilega virt í tengslum við þessa gjaldtöku.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur farið fremstur í flokki þeirra sem hafa viljað haga málum þannig lögum samkvæmt að menn verði ekki skyldaðir til að vera félagar í félögum eða partur af félagasamtökum sem þeir kæra sig ekki um að vera í og að sama skapi sé óheimilt og óeðlilegt að skylda menn til greiðslu á gjöldum eða sköttum til félags sem þeir vilja ekki vera aðilar að. Ég hef tekið undir þessi sjónarmið með hv. þm. Pétri H. Blöndal í gegnum tíðina á Alþingi og flutt með honum frumvörp sem kveða á um breytingu á þessu fyrirkomulagi.

Það er eðlilegt að ríkisstjórnin bregðist við þegar íslenska ríkið er dæmt fyrir að brjóta mannréttindi gegn borgurum þessa lands með því að leggja fram frumvarp og reyna að snúa frá því fyrirkomulagi sem óheimilt hefur talist og dæmt hefur verið í ósamræmi við ákvæði laga.

Saga iðnaðarmálagjaldsins er rakin ágætlega í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Gjaldtakan hófst á árinu 1975 og hefur verið viðhöfð síðan. Ég ætla ekki að reifa þá sögu nánar, en í greinargerð með frumvarpinu er vikið að því að um lögmæti þeirrar gjaldtöku sem frumvarpið snýst um og varðar iðnaðarmálagjald hafi verið fjallað fyrir íslenskum dómstólum í gegnum tíðina. Það er vísað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 166/1998 og síðan þess máls sem leiðir til þess frumvarps sem við erum hér að ræða, þ.e. hæstaréttardóms nr. 315/2005.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að það fyrirkomulag sem viðgengist hefur við innheimtu iðnaðarmálagjaldsins væri lögmætt og að ekki væri ástæða til að gera á því breytingar en það vekur athygli að einn dómari við Hæstarétt, Ólafur Börkur Þorvaldsson, skilaði sératkvæði þar sem hann taldi að með hliðsjón af athugasemdalausri ráðstöfun gjaldsins til almennrar starfsemi Samtaka iðnaðarins yrði að líta svo á að það fyrirkomulag sem markað er í lögunum um iðnaðarmálagjald feli í sér allríka skyldu áfrýjandans til þátttöku í starfsemi samtakanna, þ.e. Samtaka iðnaðarins, án þess að hann hafi veitt samþykki sitt fyrir því. Dómarinn taldi að skýra yrði ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um rétt manna til að standa utan félaga svo að tilhögun eins og boðin er með núverandi lögum sé óheimil nema hún fullnægi þeim skilyrðum sem síðari málsliður 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar tekur til. Ég vísaði til þessara ákvæða áðan, þ.e. að í 2. mgr. 74. gr. er sagt að engan megi skylda til aðildar að félagi en þó sé það heimilt í þeim tilvikum þegar það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki sínu vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Dómarinn taldi hins vegar að svo væri ekki í þessu tilviki, hann taldi að Samtök iðnaðarins sem iðnaðarmálagjaldið hefur runnið til væru ekki félag með þannig starfsemi sem þar um ræðir. Af þessum sökum taldi þessi hæstaréttardómari að fallast bæri á kröfu þess sem málið höfðaði um að fella ur gildi álagningu iðnaðarmálagjalds á hendur honum.

Þegar menn lesa síðan dóm Mannréttindadómstóls Evrópu og bera hann saman við dóm Hæstaréttar er ljóst að Mannréttindadómstóllinn tekur undir sjónarmið dómarans sem fram koma í sérálitinu við hæstaréttardóminn. Í greinargerðinni segir að Mannréttindadómstóllinn hafi fyrst lagt mat á það hvort 11. gr. mannréttindasáttmálans um félagafrelsið ætti við í málinu. Með vísan til þess að kærandi væri skyldaður til þess með lögum að greiða gjald til samtaka á vettvangi einkaréttarins, sem hann hefði ekki sjálfur valið að ganga í og hefði stefnumál sem hann væri ósammála, svo sem aðild Íslands að Evrópusambandinu, kæmi umkvörtun hans til skoðunar undir 11. gr. sáttmálans sem er skoðuð í ljósi 9. og 10. gr. um sannfæringar- og skoðanafrelsi.

Kjarni málsins er að sá aðili sem höfðaði málið var ósáttur við að vera skyldaður af löggjafanum til að greiða gjald til Samtaka iðnaðarins, samtaka sem hann sjálfur kaus ekki að tilheyra og var ósammála þeirri stefnumótun sem þau samtök stóðu fyrir í tengslum við Evrópumál. Nú segi ég þetta ekki til að reyna að kasta einhverri rýrð á hin ágætu Samtök iðnaðarins en það er auðvitað eðlilegt sjónarmið, hvort sem rætt er um það í tengslum við þau tilteknu samtök eða önnur, að réttur manna til að standa utan félaga sem þeir kæra sig ekki um að vera aðilar að og réttur manna til að þurfa ekki að greiða gjald til félaga sem þeir vilja ekki tilheyra sé virtur. Það er kjarninn í þessum dómi og því sjónarmiði sem fram kemur í séráliti Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara í hæstaréttardóminum frá árinu 2005 sem síðan er tekið upp og Mannréttindadómstóll Evrópu gerir að sínu í forsendum fyrir þeirri niðurstöðu sem hann komst að.

Eins og áður segir held ég að þau meginsjónarmið sem fram koma í dómi Mannréttindadómstólsins hljóti að koma til skoðunar varðandi aðra gjaldtöku sem lög mæla fyrir um að borgarar þessa lands þurfi að sæta. Þá hef ég í fyrsta lagi í huga búnaðarmálagjald sem er í eðli sínu alveg sambærilegt iðnaðarmálagjaldinu, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur bent á í fjölmörgum ræðum sínum á Alþingi um slíka gjaldtöku og sömuleiðis í frumvörpum sem hann hefur flutt hér til að freista þess að á þessu fyrirkomulagi verði gerð einhver breyting. Þetta stóra mál snýst svo ekki síður um rétt manna til að standa utan stéttarfélaga. Í núverandi löggjöf er skylduaðild að stéttarfélögum og launþegar sem eru skyldaðir til að tilheyra þeim eru einnig skyldugir til að greiða til þeirra.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt hér að þessi mál séu öll til skoðunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Ég fagna því að svo sé (Gripið fram í: Þetta er rangt.) enda tel ég fulla ástæðu til að skoða það fyrirkomulag sem nú er í ljósi þeirra dóma sem fallið hafa, þeirrar dómaframkvæmdar sem við sjáum hér á Íslandi og þeirrar tilhneigingar almennt í samfélaginu að fólk fái að ráða sér og sínum málum sjálft.

Í þessu frumvarpi er hins vegar ekki mælt fyrir um að iðnaðarmálagjaldið verði fellt niður. Í 2. gr. er lagt til að 3. gr. laganna verði breytt þannig að í stað þess að tekjurnar af gjaldinu renni til Samtaka iðnaðarins renni þær til ríkissjóðs. Það er ekki verið að fella iðnaðarmálagjaldið niður. Iðnaðarmenn sleppa ekki við greiðslu iðnaðarmálagjaldsins þó að þeir kunni að vera ósammála stefnu ríkisins eða ríkisstjórnarinnar sem þeir hljóta flestir að vera í ljósi þess hver stefna ríkisstjórnarinnar er gagnvart iðnaðinum og fyrirtækjunum í landinu.

Það er mikilvægt að menn hafi í huga að þó að þessi kerfisbreyting sem mælt er fyrir um í frumvarpinu sé eðlileg í ljósi þess dóms sem fallið hefur eru menn ekki lausir undan greiðslu. Þeir verða þess í stað skyldaðir til að greiða iðnaðarmálagjaldið til ríkisins, hvort sem þeir eru hlynntir stefnu ríkisstjórnarinnar, t.d. í Evrópumálum, eins og sá maður var sem gerði atlögu að gjaldinu vegna Evrópustefnu Samtaka iðnaðarins.