138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg óskaplega erfitt, ekki síst fyrir lögfræðinga, að svara því fyrir fram að hvaða niðurstöðu dómstólar mundu komast eða dæma í einstökum málum. Mér sýnist í fljótu bragði og eftir minni — ég hef ekki nýlega borið starfsmannalögin eða lög um opinbera starfsmenn saman við þessi ákvæði — að sömu sjónarmið ættu við varðandi túlkun mannréttindaákvæðanna í þessu máli. Ég mundi fyrir fram telja að fyrst þetta gjald og þessi gjaldtaka stangaðist á við 11. gr. mannréttindasáttmálans sé líklegt að ákvæðið um skyldugreiðslu opinberra starfsmanna til stéttarfélaga sinna eða til stéttarfélaga á því sviði fæli í sér nákvæmlega sams konar brot, jafnvel stærra brot. Ég hygg að það yrði jafnvel auðveldara fyrir dómstólinn að komast að niðurstöðu í því máli einmitt vegna þess sem hv. þingmaður hefur bent á, að gjaldtakan sjálf er ákveðin af stéttarfélögunum. Lögþvingunin kemur frá ríkinu en allt annað er í höndum stéttarfélaganna. Iðnaðarmálagjaldið er þó aðeins betur útfært í lögum svo ég mundi halda að í lögum um opinbera starfsmenn væri gengið enn lengra heldur en í lögunum um iðnaðarmálagjaldið.

Varðandi gjald til starfsmenntasjóðs hygg ég að þar kæmu önnur sjónarmið líka til umfjöllunar (Forseti hringir.) eins og það hvort skattlagningin sé nægilega útfærð í lögum (Forseti hringir.) og þess háttar. Það gæti komið til kasta íslenskra dómstóla að ákveða hvort um sé að ræða framsal skattlagningarvalds sem ekki sé heimilt.