138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[14:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem nú koma fyrir þingið með frekar stuttum fyrirvara. Er með því í rauninni verið að bregðast við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll í apríl, seint í apríl ef ég man rétt, og gerði ákveðnar athugasemdir og bannaði þá framsetningu sem hefur verið á iðnaðarmálagjaldi hingað til.

Helsta breytingin sem hér er gerð er að iðnaðarmálagjaldið er í raun fært frá Samtökum iðnaðarins, þ.e. að það renni þangað, og í ríkissjóð vegna ársins 2009. Ef ég skil þetta rétt, eftir ekki svo mjög langa kynningu á málinu eða mikinn lestur, má segja að þær 420 milljónir sem um er að ræða muni nýtast stjórnvöldum ágætlega við að stoppa upp í fjárlagagatið næsta haust. Hér kemur líka fram að gjaldið skuli samkvæmt lögum þessum síðast lagt á vegna rekstrarársins 2009, þ.e. ekki er gert ráð fyrir samkvæmt þessu að leggja það á vegna ársins 2010 o.s.frv. Hins vegar er ekkert sem í raun segir að það verði ekki þannig, það er skilið eftir opið.

Í 2. gr. kemur fram að tekjum af þessu gjaldi sem rennur í ríkissjóð skuli varið til verkefna á sviði menntunar og nýsköpunar í iðnaði eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum. Það á sem sagt að nota peningana í þessi málefni í fjárlögunum. Ég velti þá fyrir mér, frú forseti, hvort þetta sé viðbót sem ég held að sé ekki heldur að ætlunin sé að nýta þessa peninga í staðinn fyrir þá fjármuni sem hafa verið nýttir hingað til, en það á væntanlega eftir að skýrast þegar málið fer til nefndar.

Fyrir okkur Íslendinga er mjög mikilvægt að unnið sé örugglega að framþróun iðnaðar og starfsgreinum tengdum iðnaðinum. Við vitum að fjölmargar starfsgreinar, svo sem á sviði rafmagns og véltækni, vélsmíði og annað slíkt, eiga mikið undir iðnaði. Því er í sjálfu sér eðlilegt að stutt sé með einhverjum hætti við menntun, rannsóknir og nýsköpun á sviði iðnaðar og í þessum greinum. Að sjálfsögðu er alltaf umdeilanlegt hvernig það er gert en hins vegar er mikilvægt að allra mannréttinda sé gætt í þessu máli og eins og kemur fram í máli margra þeirra þingmanna sem hér hafa talað er lögð áhersla á það.

Í athugasemdum við frumvarpið og umfjöllun um það kemur fram ágætisyfirlit yfir sögu iðnaðarmálagjalds, hvernig því hefur verið ráðstafað, til hvaða verkefna og þess háttar. Meginniðurstaða dómsins er í rauninni sú að framkvæmd laganna hafi ekki verið með réttum hætti og má því hugsanlega túlka það þannig að breyta þurfi framkvæmdinni. Hins vegar má velta fyrir sér hvort ekki sé nauðsynlegt að afla tekna áfram næstu árin til þróunar og nýsköpunar í iðnaði með einhvers konar gjaldtöku. Er það væntanlega ríkisins að ákveða hvort það komi að því eða hvort það verði eingöngu á hendi þeirra samtaka eða aðila sem starfa í greininni.

Það kemur fram í athugasemdunum að ekki megi ráða af dómnum að það sé beinlínis óheimilt að innheimta þetta gjald. Get ég tekið undir það og vísa aftur til þess sem ég sagði áðan varðandi framkvæmdina. Hins vegar er mikilvægt að svona gjaldtökumál verði skoðuð heildrænt. Það hefur verið mikilvægur hluti af starfsemi ýmissa samtaka og hópa í landinu að afla sér tekna og þeir fái tekjur með þessum hætti og hef ég í sjálfu sér ekki mikið við það að athuga ef framkvæmdin á því er eðlileg og rétt og stangast ekki á við mannréttindi og lög.

Hægt er að rökstyðja það að fjármunum af þessari gjaldtöku eins og öðrum hafi verið vel varið eða á réttan hátt en hins vegar er líka hægt að benda á og sjálfsagt, og menn verða að viðurkenna það, að það hefur kannski ekki verið nógu ljóst og nógu skýrt hvert fjármunirnir hafa farið. Á bls. 5 í frumvarpinu kemur m.a. fram umfjöllun sem snertir það og ætla ég, með leyfi forseta, að lesa nokkrar línur úr þeim kafla:

„Í niðurstöðu sinni leysti dómstóllinn aðeins úr kærunni á grundvelli 11. gr. en taldi ekki þörf á því að meta hvort önnur ákvæði sáttmálans hefðu verið brotin. Dómstóllinn lagði fyrst mat á það hvort 11. gr. um félagafrelsið ætti við í málinu. Með vísan til þess að kærandi væri skyldaður til þess með lögum að greiða gjald til samtaka á vettvangi einkaréttarins, sem hann hefði ekki sjálfur valið að ganga í og hefði stefnumál sem hann væri ósammála, svo sem aðild að Evrópusambandinu, kæmi umkvörtun hans til skoðunar undir 11. gr. skoðaðri í ljósi 9. og 10. gr. um sannfæringar- og skoðanafrelsi.“

Þarna gerir kærandinn athugasemd við það að verið sé að nota fjármuni í hluti sem eru andstæðir skoðunum hans og hugsun og ljóst að dómstóllinn tekur að nokkru leyti tillit til þess að Samtök iðnaðarins hafa barist m.a. fyrir aðild að Evrópusambandinu, en sá ágæti aðili sem kærir þetta mál telur það fara gegn sínum prinsippum og hugsun. Það er því alveg ljóst að dómurinn segir að skýra þurfi hvernig þessir fjármunir eru notaðir.

Einnig kemur fram hér að Samtök iðnaðarins hafi árið 2009, svo dæmi sé tekið, farið í mikið kynningarátak þar sem áherslan var m.a. lögð á að kaupa og nota íslenska vöru, sem hlýtur að teljast afar jákvætt fyrir iðnaðinn og fyrir Íslendinga alla. Hin hliðin á því er hvort það sé eitthvað óeðlilegt að a.m.k. þeir sem kjósa, og um það snýst kannski þessi dómur einmitt og umræðan, að greiða slíkt gjald hafi eitthvað um það að segja eða fái alla vega upplýsingar um hvernig gjaldinu er varið. Í þessu tilfelli var því varið, a.m.k. að hluta, til að kynna íslenska vöru sem gagnast að sjálfsögðu um leið þeim aðilum sem starfa innan þessara samtaka.

Það verður aldrei of mikið af því gert að hvetja Íslendinga alla til að beina viðskiptum sínum að eða kaupa vörur sem efla og stuðla að atvinnustarfsemi í landinu. Íslenskur iðnaður er, eins og ég nefndi áðan, margslungin atvinnugrein með margar hliðargreinar og ýmsir aðilar byggja starfsemi sína á honum. Því er ósköp eðlilegt, að mínu viti, að hvatt sé til þess sérstaklega að íslenskar vörur séu valdar umfram aðrar. Nú kann að vera að það stangist að einhverju leyti á við reglur Evrópusambandsins eða eitthvað slíkt en af því hef ég ekki miklar áhyggjur, svo ég tali hreint út, því að við getum ekki endalaust tekið upp og apað eftir þeim alþjóðlegu samböndum sem vilja troða upp á okkur reglugerðum sínum og lögum. Hins vegar verðum við að sjálfsögðu að virða þá sáttmála og samninga sem við erum aðilar að. Spurningin er þá hvort við erum að nýta það svigrúm sem við höfum til aðlögunar eða tímabundna fresti og þess háttar.

Menntun í iðnaði og iðngreinum er gríðarlega mikilvæg og því má velta fyrir sér hvort afnám þessa gjalds hafi einhver víðtæk áhrif á þann þátt. Ég er ekki viss um að svo sé en hins vegar er ljóst að ef svo er þarf ríkisvaldið og ætti í rauninni hvort sem er að reyna að efla iðnmenntun og iðnnám í landinu því að það er mikil eftirspurn eftir því núna og því mikilvægt að við glötum ekki niður þeirri þekkingu og jafnvel því forskoti sem við höfum á ýmsum sviðum.

Ég vil í þessu efni nefna að í kringum ákveðnar iðngreinar, eins og t.d. áliðnaðinn, hafa sprottið upp ýmis nýsköpunarfyrirtæki og vöruþróun verið mikil. Eru jafnvel fyrirtæki, vélsmiðjur og slík fyrirtæki að flytja út starfsemi sína og selja og kynna erlendis.

Svo ég komi aftur aðeins að þeim dómi sem er ástæðan fyrir þessari lagabreytingu þá virðist dómstóllinn, eins og ég sagði áðan, einblína svolítið á framkvæmd laganna og segir jafnvel að gjaldtakan feli í sér takmörkun á réttindum kærandans eða þeirra sem þarna eiga í hlut. Því má velta fyrir sér hvort skyldugreiðslur sem þessar, sem munu heyra sögunni til á næstu missirum, hvort einhverjar aðrar leiðir verði fundnar til að gera slíkt. Hins vegar hljótum við alltaf að hafa í huga frelsi einstaklingsins til að velja og hafna og hagsmunamat hans á þeirri stöðu í hvert sinn.

Dómstóllinn fellst á ákveðna hluti varðandi þetta gjald en bendir hins vegar á a.m.k. þrjá þætti sem hann gerir athugasemdir við og eru þá væntanlega forsendur eða rökstuðningur fyrir þessari ákvörðun dómstólsins. Í fyrsta lagi er það skilgreining laganna á því hvernig iðnaðarmálagjaldinu skuli varið, þ.e. að það sé ekki nógu ljóst. Í öðru lagi að gjaldið sé ekki nægilega aðgreint frá fjárreiðum samtakanna, og verð ég að segja að það hlýtur náttúrlega að vera mjög mikilvægt að slíkur aðskilnaður í bókhaldi sé mjög skýr. Og í þriðja lagi að opinbert eftirlit með því hvernig fénu sé varið hafi ekki verið nægjanlegt, og kemur þar að þætti ríkisins.

Við getum ekki horft fram hjá því, frú forseti, að íslenska ríkið var í rauninni dæmt samkvæmt þessum dómi til að breyta vinnulagi sínu. Frumvarpið er því vitanlega sett fram í þeim anda en hins vegar ekki strax þar sem innheimta á vegna ársins 2009 og láta þá fjármuni renna í ríkissjóð. — Ég sé að hæstv. iðnaðarráðherra er ekki í salnum að hlýða á umræðuna sem að mínu viti telst mjög undarlegt, ég var bara ekki búinn að gera athugasemd við það fyrr, og mælist ég til þess að forseti hvetji hæstv. iðnaðarráðherra til að sitja undir a.m.k. þeim ræðum sem eftir eru. Það er lítið eftir af mínum tíma. — Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á því umsýslugjaldi sem ríkissjóður hefur innheimt. Í 2. gr. er lagt til að tekjurnar renni í ríkissjóð. Í 3. gr. er lagt til að bráðabirgðaákvæði bætist við og það er vegna síðasta rekstrarárs.

Frú forseti. Við verðum að sjálfsögðu alltaf að hafa mannréttindi í huga og að þau séu ekki fótumtroðin eða á þeim brotið. Markar þessi dómur að mörgu leyti tímamót að því leytinu til að hér er verið að skýra ákveðna hluti, hvort dómurinn hefur einhverjar aðrar eða frekari afleiðingar eða merkingu skal ég ekki segja en hann verður væntanlega hvati til þess að menn skoði með hvaða hætti önnur sambærileg gjöld eru innheimt og hvernig þeim er varið. Ég er hins vegar ekki að útiloka gjaldtöku sem þessa sé hún innan eðlilegs lagaramma og taki tillit til frelsis einstaklingsins. Að öðru leyti ætla ég ekki að segja meira um þetta mál í bili.