138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[14:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð yfir málið. Það er rétt hjá honum að Samtök iðnaðarins hafa unnið gott starf. Ég held að það sé ekkert út á starf þeirra að setja. Ég reikna líka með því að eftir að gjaldið hefur verið lagt af með lögum muni meginhluti iðnfyrirtækja halda áfram að greiða beint til Samtaka iðnaðarins þannig að ég hef ekki stórar eða miklar áhyggjur af því.

Það er eitt sem ég hjó sérstaklega eftir. Hv. þingmaður kom inn á eitt verkefni sem Samtök iðnaðarins hafa staðið að, verkefnið Kaupum íslenskt. Ég er í sjálfu sér mjög hlynntur því og átta mig á því að þegar Íslendingar kaupa íslenskt eykur það atvinnu á Íslandi. Evrópusambandið hefur hins vegar gert athugasemd við þetta vegna þess að það á að vera samkeppni milli landa og það yrði t.d. ekki liðið ef Hollendingar mundu segja Kaupum hollenskt við sína borgara og færu allir að kaupa hollenskt, allir í Frakklandi mundu kaupa franskt, í Bretlandi breskt og Þýskalandi þýskt. Þá mundu viðskipti milli landa í Evrópusambandinu leggjast af eða yrðu miklu minni og samkeppni mundi riðlast.

Ég kom bara í andsvar út af þessu eina atriði, en ég tek undir það að Samtök iðnaðarins hafa unnið gott starf sem og flest önnur samtök sem eru fjármögnuð með þessum hætti. Nefni ég þar Búnaðarsamband Íslands, Fiskræktarsjóð, BSRB og fleiri aðila sem allir eru núna komnir í þá stöðu að innheimta gjaldsins og álagning brjóti hugsanlega mannréttindi.