138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[14:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi orð hans. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að meginhluti þeirra fyrirtækja sem greiða iðnaðarmálagjald í dag muni örugglega greiða það áfram með einhverjum hætti til sinna samtaka. Þótt ég sé ekki sérstaklega kunnugur því hvernig reglur þessara samtaka eru, félagsreglur eða lög, geri ég fastlega ráð fyrir því að samtökin muni reyna að ná þessum aurum inn með einhverjum öðrum hætti.

Varðandi Veljum íslenskt er að mínu viti algjörlega óþolandi að Íslendingar skuli ekki geta lagt áherslu á afurðir sínar eða framleiðslu án þess að Evrópusambandið skipti sér af því. Það er sjálfsagt gert í nafni samkeppni eða einhvers slíks en við verðum líka að spyrja okkur hvernig samkeppnin sé innan Evrópusambandsins á ákveðnum sviðum. Við sjáum að á sviði landbúnaðarmála, sem er mikil íslensk framleiðsla hér og skiptir miklu máli fyrir Ísland, eru það stór fyrirtæki, verksmiðjubú sem þiggja helstu styrki frá Evrópusambandinu. Maður veltir fyrir sér hvernig samkeppnin sé innan þeirra raða þegar slík risafyrirtæki ráða orðið lögum og lofum á markaði.

Ég verð að segja að fjármunum sem er varið í að styðja íslenska framleiðslu, hvort sem það er iðnaðarframleiðsla eða eitthvað annað, er mjög vel varið því að það er hagur allra að velja og kaupa íslenskt. Það sparar gjaldeyri og eykur atvinnu. Menn ættu að vera hreinlega stoltir af þeim sem fara fram með slíka vinnu.