138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[14:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um iðnaðarmálagjald. Hér stendur til að fella niður það títtnefnda gjald sem er í sjálfu sér mikið fagnaðarefni. Ég vil nota þetta tækifæri og óska hv. þm. Pétri Blöndal sérstaklega til hamingju með það vegna þess að hann hefur eins lengi og elstu menn muna, er mér nær að segja, verið baráttumaður fyrir því að þetta gjald yrði afnumið. (TÞH: Svo lengi …) Já, einmitt, hér kallar hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fram í. Þetta er orðin löng saga, gjaldið er síðan 1975 og það má segja að barátta hv. þm. Péturs Blöndals hafi getað byrjað akkúrat þá.

Það er fagnaðarefni að gjaldið skuli afnumið. Ég verð þó að viðurkenna að það stingur í augu hvernig það er gert. Það er sérstaklega tekið fram að gjaldið verði lagt á fyrir rekstrarárið 2009 og það renni í ríkissjóð en því verði ráðstafað eins og segir í greinargerðinni, með leyfi forseta, „til mennta- og nýsköpunarverkefna á sviði iðnaðar og að sú ráðstöfun verði ákveðin á fjárlögum“.

Ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki bara önnur aðferð við að segja að þessu gjaldi verði ráðstafað til Samtaka iðnaðarins. Þá spyr ég: Getur það hugsanlega verið að hæstv. ríkisstjórn taki hér dóm Mannréttindadómstóls Evrópu og fari eftir honum aðeins að hluta? Getur það verið, virðulegi forseti? Úr því að framkvæmdin á gjaldtökunni var dæmd ólögleg og borið við félagafrelsi, að tekið væri gjald af fyrirtækjum og einstaklingum gegn vilja þeirra, þau skuldbundin til að greiða til þessara samtaka hvort sem þau kusu að vera þar eða ekki, mundi ég halda að ef fara ætti eftir dómnum út í hörgul ætti að endurgreiða þessu ágæta fólki það gjald sem af því hefur verið tekið. Í framkvæmdinni virðist þó ekki eiga að gera það, heldur láta gjaldið renna í ríkissjóð með fyrirheitum um að þetta fari til þessa málaflokks sem óneitanlega skarast við starfsemi Samtaka iðnaðarins.

Þetta held ég að þurfi að skoða í nefndinni. Er þetta þá, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sem talaði hér á undan mér velti upp, gert með þessari aðgerð núna til að kroppa 420 millj. kr. inn í ríkissjóð þegar ríkissjóður á vissulega um sárt að binda? Það skyldi þó ekki vera.

Þetta eru atriði sem þarf að skoða og athuga hvort farið sé fullnægjandi að þessum dómi í þessu tilliti.

Hv. þm. Pétur Blöndal hefur verið baráttumaður fyrir þessu, eins og ég sagði, en hann hefur líka barist gegn og bent á önnur gjöld sem hann telur vafasöm, t.d. búnaðargjald og höfundarréttargjald. Hann hefur bent á að stefgjald er lagt á alla tölvudiska. Þegar maður kaupir sér tölvu og tölvudisk þarf maður að borga stefgjald. Það er atriði sem hann hefur gert ágreining um og hann hefur lagt fram fjölmörg frumvörp þannig að ég vona að sá dagur komi að hann fái uppreisn æru gagnvart því gjaldi eins og þessu hérna.

Ég tel að það verði að skoða öll þessi gjöld samtímis þegar verið er að fjalla um þetta mál, eða í framhaldi af því vegna þess að við leggjum sannarlega ekki til að þetta mál verði tafið. Það er brýnt að afnema þetta gjald. Það vekur óneitanlega furðu hversu seint þetta mál kemur fram. Hæstv. ríkisstjórn leggur það hér fram og við ræðum það 12. júní og þinginu á að ljúka 15. júní. Dómurinn féll í apríl og það er með ólíkindum að málið skuli ekki koma hingað fyrr. En ég legg til að eftir afgreiðslu þessa máls verði skoðuð önnur gjöld sem eru innheimt á þennan sama hátt, þar sem ýmist er ágreiningur um hvort lagastoð sé fyrir skattlagningu eða hvort hugsanlega sé um að ræða brot á félagafrelsi, og þau öll tekin til gagngerrar endurskoðunar.

Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á þessi ágætu samtök og stofnanir sem byggja rekstur sinn á innheimtu þessara gjalda, ég geri ekki athugasemd við rekstur Samtaka iðnaðarins á nokkurn hátt, þau hafa unnið gott starf í gegnum árin. Skýrsla Samtaka iðnaðarins til iðnaðarráðuneytisins um ráðstöfun iðnaðarmálagjaldsins er fylgiskjal með frumvarpinu. Það er afar fróðleg lesning og gefur ágætisyfirsýn yfir það sem gerist á vettvangi samtakanna. Ég verð að viðurkenna að það eina sem ég hef haft við þessi samtök að athuga á umliðnum árum er áhersla þeirra á inngöngu okkar í Evrópusambandið og ég tel að það hafi verið grunnurinn að þessum málaferlum, a.m.k. þetta mál sem endaði fyrir Mannréttindadómstólnum. (Gripið fram í.) Það verður m.a. til vegna andstöðu kæranda við Evrópustefnu Samtaka iðnaðarins. Þegar mönnum er gert að greiða til ákveðinna samtaka er rétt að gerð sé krafa um það að fyllsta hlutleysis sé gætt í svona umdeildum málum.

Það kemur fram í greinargerðinni að Samtök iðnaðarins framkvæma fjölmörg áhugaverð verkefni, allt frá því að vera talsmaður fyrir iðnaðinn í það að gefa út rit og halda ráðstefnur, Iðnþing. Þar er alltaf fjallað um það sem er efst á baugi í þessum geira og mikilvægt að vel sé haldið utan um hagsmuni og verkefni þessara samtaka. Ég er ekki að gera lítið úr þeim en það er alveg klárt að það þarf að koma þessum tekjumálum þeirra í betra horf.

Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að samtökin hyggist í framhaldi af þessum dómi — að sjálfsögðu ætla þau að virða hann — fjármagna sig með félagsgjöldum hér eftir. Þá hafa fyrirtækin virkilegt val um það hvort þau vilji vera aðilar að þessum félagsskap og þá greiða þau gjöldin sem það felur í sér. Að sjálfsögðu gerir enginn athugasemd við það.

Virðulegur forseti. Þetta vekur líka spurningar um mannréttindi og hvernig við sjáum þessum dómum framfylgt hér. Eins og ég sagði í upphafi er ég hugsi yfir því hvernig ríkisstjórnin virðist hafa ákveðið með þessu frumvarpi að taka bara hluta dómsins til sín, taka bara hluta dómsins alvarlega. Ríkisstjórnin hefur þá hugsanlega ekki fullnægt honum. Ég er ekki löglærð en þetta stingur mig í augu. Þetta er svona „keisarinn er ekki í neinum fötum“, bannað að innheimta gjaldið en það verður innheimt samt og úthlutað til sömu verkefna, bara undir öðru nafni. Einhvers staðar mundi svona kallast kennitöluflakk. Það er spurning hvort það sé réttnefni hér og eigi við.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir þau atriði sem mér þykja mikilvæg í þessari umræðu. Nefndinni gefst afar stuttur tími til að fara yfir málið og ég vona að það verði tryggt í framhaldinu að hv. iðnaðarnefnd, sem og aðrar nefndir hér og þingið í heild, gaumgæfi þessi gjöld sem áhöld eru um að uppfylli þessi skilyrði, hvort sem er út frá skattalegu tilliti eða mannréttindaákvæðum eins og félagafrelsi. Það er nokkuð sem við verðum að taka alvarlega.

Við ræddum stjórnarskrána hér í gær og greiddum atkvæði um stjórnlagaþingið, að koma því til 3. umr. hér í morgun. Ef það er eitthvað sem við höfum lært af umræðum síðustu ára, ekki síst eftir hrun þegar lýðræðisumbætur þykja mikilvægar, sérstaklega núna, er það spursmál hvort það séu réttu skilaboðin, ef rétt reynist, að ríkisstjórnin taki bara tillit til hluta dóms Mannréttindadómstóls Evrópu. Eins og ég segi sker ég ekki úr um það en mér finnst þurfa að ræða þetta atriði. Ég hvet því hv. iðnaðarnefnd til að fara vel yfir þetta á þeim skamma tíma sem henni er ætlaður og ég geri enn á ný athugasemd við það hversu seint fram komið þetta frumvarp er. Það er ekki lýsandi dæmi um öguð og örugg vinnubrögð á hinu háa Alþingi, því miður. Það er nokkuð sem við þurfum öll að taka höndum saman um að bæta vegna þess að það er hættulegt þegar frumvörp koma svona seint fram. Þegar lagasetningin er gerð í slíkum flýti er alltaf hætta á mistökum. Það er nokkuð sem við þingmenn þurfum að einhenda okkur í að bæta til að koma í veg fyrir mistök í lagasetningunni.

Frú forseti. Ég hef reifað þau helstu atriði sem ég vildi vekja athygli á og treysti því að nefndin fari vel yfir þessi mál.