138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:39]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir tillögu hans og ábendingu. Ég tók eftir því að hann varpaði fram því sjónarmiði fyrr í dag í umræðunni hvort ekki væri rétt að afnema að fullu lögin um iðnaðarmálagjald.

Ég tel að sú spurning sé fyllilega réttmæt, menn hljóti að skoða það í ljósi þessa dóms sem kveður á um að framkvæmd laganna og þar af leiðandi tiltekin ákvæði laganna brjóti í bága við tiltekin ákvæði í mannréttindasáttmála Evrópu. Það er sannarlega eitt af þeim atriðum sem ég tel að iðnaðarnefnd eigi að taka til skoðunar.

Hvort það er möguleiki í stöðunni að gera þá breytingu að endurgreiða gjaldið afturvirkt er hlutur sem er sömuleiðis eðlilegt að nefndin fari yfir. Eins og rakið er ágætlega í athugasemdum með frumvarpinu hefur gjaldið verið notað til margra þarfra verkefna á vegum Samtaka iðnaðarins í gegnum árin. Ég reikna með að þeim fjármunum hafi öllum verið varið til þeirra verkefna. Ég tel ekki að sú ábending þingmannsins sé réttmæt að það sé eðlilegt að gjaldið renni áfram til Samtaka iðnaðarins á þessu ári til að standa straum af hugsanlegri endurgreiðslu. Ég tel að þar með værum við komin á mjög grátt svæði varðandi það að bregðast með réttum hætti við meginatriði dómsins sem gengur einmitt út á það að þessi ráðstöfun fjárins til Samtaka iðnaðarins sé óeðlileg.

Hugmynd hans um að afnema lögin sjálf er allrar athygli verð að mínu mati og verður tekin til skoðunar í iðnaðarnefnd eins og önnur ótæk lög sem við erum að velta fyrir okkur í þinginu að afnema, eins og t.d. vatnalögin.