138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:44]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að það er ekki hægt að velja og hafna hvernig menn bregðast við mannréttindabrotum. Viðbrögð okkar þurfa að vera mjög fumlaus og ákveðin, skilaboðin þurfa að vera skýr. Mér finnst það ekki skýr skilaboð frá stjórnvöldum sem viðbrögð við dómnum að halda áfram að láta féð renna á þessu ári til Samtaka iðnaðarins þótt það sé til þess að standa straum af endurgreiðslu á þessum gjöldum. Ég tel að við sniðgöngum þá meginniðurstöðu dómsins. Ef menn vilja fara þessa leið er mun eðlilegra að fjármagnið renni í sérstakan sjóð sem stendur straum af endurgreiðslum vegna þeirra gjalda sem hafi verið tekin af fyrirtækjum í þessu skyni.

Ég er sammála því mati hv. þingmanns að allar líkur séu á því að það verði ekki nema takmarkaður hluti þeirra sem hafa þurft að reiða þessa fjármuni af í hendi í gegnum tíðina sem muni raunverulega fara fram á endurgreiðslu. Allt að einu er nauðsynlegt og mikilvægt að þeir eigi þess kost. Viðbrögð okkar við dómnum eiga að vera þau að taka hann mjög alvarlega. Við eigum að taka til skoðunar önnur þau gjöld sem svipað kann að vera ástatt um og tryggja að við lærum af reynslunni og burðumst ekki með gjöld sem eru á gráu svæði eða hreinlega á kolsvörtu svæði ef þau ýta undir brot á mannréttindum einstaklinga.