138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[17:02]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka orð mín frá því hér áðan af því að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson var að ræða um málsmeðferðina í framhaldinu. Ég tók eftir því að í umræðum í dag féllu orð í svipaða veru þar sem verið var að leiða að því líkum að í meðförum nefndarinnar á málinu yrði það keyrt í gegn á örfáum sólarhringum. Ég tel hins vegar að málið sé það viðurhlutamikið og þarna séu það stór mál undir, um mannréttindabrot, um félagafrelsi og um gjaldtöku, sem hringar sig í reynd um allt okkar samfélag og hefur verulegar afleiðingar, að það sé hreint ábyrgðarleysi af nefndinni að fjalla ekki vandlega um málið, kalla eftir umsögnum umsagnaraðila, kalla sérfræðinga fyrir nefndina o.s.frv. Það á ekki að spilla málinu með neinum hætti en við þurfum að stíga hvert skref vandlega í málum sem þessum og tryggja að niðurstaðan verði viðunandi. Ég lét þess getið hér áðan — hv. þingmaður var ekki í salnum á þeim tíma — að við mundum m.a. skoða hvort það er rétt túlkun á niðurstöðu dómsins að eðlilegt sé að halda áfram að innheimta gjaldið á yfirstandandi ári.

Ég tek eftir því að það er túlkun stjórnvalda að gjaldtakan sé áfram heimil þó að ráðstöfun fjárins sé óheimil. Ég ber virðingu fyrir því sjónarmiði en við þurfum að fara vel yfir það hvort við erum þar örugglega með fast land undir fótum. Síðan hefur Pétur H. Blöndal varpað fram þeirri athyglisverðu hugmynd hvort ekki sé eðlilegt að afnema lögin að fullu. Ég tel að það sé eitt af því sem við eigum að skoða enda er ég annálaður stuðningsmaður þess að við afnemum vond lög.

(Forseti (ÁÞS): Forseti minnir hv. þingmann á að nefna aðra þingmenn á viðeigandi hátt.)