138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[17:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum hér er stórt og ég get ekki tekið undir með hæstv. iðnaðarráðherra að menn séu í einhverjum leik þegar verið er að ræða um það að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um iðnaðarmálagjald hafi komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmd laga um iðnaðarmálagjald væri í andstöðu við 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Við verðum náttúrlega að taka þessum dómi mjög alvarlega og mér finnst ósköp eðlilegt að við ræðum á þessum vettvangi um þetta stóra og brýna mál. Nú er það svo að ríkisstjórnin hefur lýst yfir vilja sínum til þess að þetta mál og breytingar á þessum lögum nái fram að ganga á síðustu dögum þingsins. Við í stjórnarandstöðunni höfum lýst yfir vilja til samvinnu og samstarfs við úrlausn þessa máls. Það er því ekki hægt að bera það upp á minni hlutann hér á Alþingi að hann ætli að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum. Við höfum samþykkt afbrigði þess efnis að frumvarpið komi hér til umræðu en af eðli stærðar málsins er eðlilegt að við ræðum þessi mál til hlítar og það er mikilvægt að hv. iðnaðarnefnd fari með mjög vönduðum hætti yfir málið og líka í samhengi við aðra málaflokka er snerta gjaldtöku af þessari stærðargráðu.

Ég kem hingað upp til að mótmæla því að menn séu að ýja að því að stjórnarandstaðan á þingi sé í einhverju málþófi í þessu máli (Gripið fram í: Leik.) — eða leik. Mér finnst að hæstv. ráðherra og þeir hv. þingmenn sem ýja að slíku þurfi að gæta orða sinna og gæta að virðingu þingsins. Mér er gjörsamlega misboðið, herra forseti, að þurfa að sitja undir ámæli um að vera í einhverjum leik þegar menn hafa á vettvangi þingsins náð samkomulagi um að þetta mál eigi að ná fram að ganga. Þetta er stórt mál. Það þarf að fara yfir það á vettvangi nefndarinnar og ekki er gefinn mikill tími til þess. Við í stjórnarandstöðunni höfum lýst okkur fylgjandi því að fara vel og ítarlega yfir þetta mál, en þetta er stórmál. Þetta snertir aðra málaflokka eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur svo árum skiptir minnst á í þessum þingsal.

Ég vil því í góðri meiningu beina því til hv. iðnaðarnefndar að fara vandlega yfir málið. Við þurfum, væntanlega á sumarþingi, að skoða þetta mál í samhengi við aðra lagaflokka því að þennan dóm, sem er um það að framkvæmd laga um iðnaðarmálagjald sé í andstöðu við mannréttindasáttmála Evrópu, verður að taka til ítarlegrar skoðunar og umræðu og fara í hörgul ofan í málið í heild. Ég fagna málefnalegri umræðu um þetta hér í dag og ég vona að menn detti ekki ofan í einhvern hernað í þessu máli heldur sameinist um að finna góða lausn á því. En að heyra það að hv. þingmenn séu í einhverjum leik við að fjalla um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu, sem hefur komist að því að hér sé verið að brjóta mannréttindasáttmála, finnst mér að við getum eytt — ef við tökum bara önnur mál, ég vil setja þetta mál skörinni hærra en mörg önnur mál, þar sem búið er að segja alþjóðasamfélaginu að við getum hagað málum með öðrum hætti og að við séum að fara á svig við þá sáttmála sem við höfum skrifað undir á undangengnum árum og fært í lög.

Ég kem hingað upp í anda góðrar samvinnu hér á þingi og horfi á hæstv. ráðherra í einu hliðarherbergjanna. Hún má ekki skilja þessa ræðu mína sem svo að við séum að reyna að koma í veg fyrir að þetta mál fái framgang í þinginu heldur að það fái eðlilega umfjöllun, eðlilega umræðu og bara undirstrika það að við í minni hlutanum á Alþingi erum ekki í neinum leik í umræðum um þetta mál.