138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[17:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í nokkrum tilfellum er getið um það í stjórnarskránni að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla, í 26. gr. og síðan greininni um þjóðkirkjuna, ef ég man rétt. Að öðru leyti er engin heimild til þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskránni. Ég vil spyrja hv. þm. Róbert Marshall, formann allsherjarnefndar, hvort ekki þurfi að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar áður en ráðist verður í að hafa alvöruþjóðaratkvæðagreiðslur um annað en þessi tvö atriði sem ég gat um.

Þegar menn fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin á að greiða atkvæði um eitthvað telur þjóðin að öllum líkindum að hún taki ákvörðun um málið en samkvæmt stjórnarskránni eru það þingmenn sem taka ákvörðun um lög frá Alþingi og engir aðrir. Þeir fara eingöngu eftir sannfæringu sinni og ekki eftir boðum frá kjósendum sínum. Eftir að þjóðin er búin að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvert mál kemur þingið og gerir eitthvað allt annað. Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hann minntist hvorki á það í nefndarálitinu né ræðunni, hvort ekki sé nauðsynlegt að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar þannig að hér fari fram alvöruþjóðaratkvæðagreiðsla, sem ég er afskaplega hlynntur?