138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[18:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit um frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þetta er að mínu mati afskaplega merkt mál. Þegar stefndi í það að Alþingi mundi samþykkja lög um heimildir handa fjármálaráðherra til að skrifa undir Icesave-samkomulagið 28. desember sl. flutti ég í örvæntingu minni breytingartillögu einmitt um þjóðaratkvæðagreiðslu til að reyna að hindra þau ósköp sem þar hefðu dunið yfir þjóðina. Sú tillaga var felld á Alþingi og er áhugavert að kanna hverjir greiddu atkvæði gegn því að þjóðin fengi að greiða atkvæði um þetta merkilega mál. En þeir þingmenn sem samþykktu lögin um Icesave þurfa náttúrlega að gera kjósendum sínum grein fyrir því hvers vegna í ósköpunum þeir samþykktu þessi ósköp, hvernig stóð á því að þeir létu þetta verða að lögum. En sem betur fer kom Ólafur Ragnar Grímsson, forseti lýðveldisins, til skjalanna að samþykktum lögunum, hann beitti 26. gr. stjórnarskrárinnar og vísaði málinu til þjóðarinnar. Þjóðin var mjög afdráttarlaus í skoðunum sínum og kolfelldi þessi lög sem betur fer, enda hef ég sagt síðan að sérhver dagur sé góður dagur á meðan við ekki erum búin að skrifa upp á Icesave og það heldur þannig áfram. Ég vona að við náum góðu samkomulagi um að við þurfum að borga lítið sem ekki neitt í þessu máli vegna þess að við eigum ekki að borga neitt, en við mundum hugsanlega gera það vegna þess að við viljum sýna góðan lit í samstarfi við aðrar þjóðir og hjálpa þeim við að halda uppi trausti á bankakerfið í þeim löndum. En þetta er eitt dæmi um þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég lagði til.

Nú er það ekki þannig að ég hafi flutt þessa breytingartillögu og allt í einu fallist á að það væri gott að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu til að bjarga í þessu eina máli. Nei, frú forseti. Ég er almennt séð mjög hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum þannig að þetta mál var mjög vel til þess fallið að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um.

Margir hafa sagt að við kjósum fulltrúa á þing til að taka afstöðu til mála og það eigi að vera hlutverk þingmanna að mynda ramma utan um þjóðfélagið, setja lög og taka ákvarðanir og að þeir eigi ekki að skjóta sér undan því með því að vísa málum til þjóðarinnar. Ég er sammála þessu að mestu leyti en þó eru nokkur mál þess eðlis að ég tel að þjóðin eigi að hafa með þau að gera og hafa um þau að segja. Eitt þeirra er Icesave-skuldbindingin þar sem er alveg sérstaklega mikil óvissa og svo Evrópusambandið, ef svo illa skyldi vilja til að það næðist samningur við það verður það að sjálfsögðu borið undir þjóðina. En það hefur gleymst í allri umræðunni, frú forseti, að segja þjóðinni að það er ekkert að marka þá þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur algerlega gleymst að segja þjóðinni að sú þjóðaratkvæðagreiðsla er bara upp á punt og plat vegna þess að við erum ekki búin að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar. Eins og ég talaði um í andsvari við hv. formann nefndarinnar sem um þetta mál hefur vélað og er með nefndarálit er ekki hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu sem er bindandi nema varðandi 26. gr. og þegar breyta á ákvæðum um þjóðkirkjuna.

Að öðru leyti koma öll önnur mál til Alþingis og alþingismenn taka ákvörðun á grundvelli sannfæringar sinnar og ekki eftir boðum eða skipunum frá kjósendum sínum. Það stendur í stjórnarskránni. Ég tel að það þurfi að byrja á því að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um breytingar á stjórnarskránni sem nú er þannig að þjóðin greiðir aldrei atkvæði um stjórnarskrána. Það er svo merkilegt. Ákvæðið er þannig að það skal samþykkt á einu þingi tillaga um að breyta stjórnarskrá og um leið og það hefur verið samþykkt skal þing rofið og efnt til kosninga. Þetta þýðir alla jafna að allar breytingar á stjórnarskrá koma fram í lok kjörtímabils af því að þingmenn vilja klára ýmis önnur mál og vilja ekki fara í kosningar strax. Breytingartillögur koma fram í lok kjörtímabils, síðan er kosið og svo kemur nýtt þing saman. En í þeim kosningum kýs fólk þingmenn og Alþingi til næstu fjögurra ára. Hvað skyldu menn vera að hugsa um þegar þeir kjósa þingmenn til næstu fjögurra ára? Jú, hvernig landinu verði stjórnað næstu fjögur árin. Það er það sem menn eru að kjósa um. Menn eru ekki að kjósa um breytingar á stjórnarskránni sem þó ætti að vera meginmálið. Svo kemur nýtt þing saman og þar kjósa þingmenn samkvæmt sannfæringu sinni og annaðhvort fella breytinguna eða samþykkja hana. Hún hefur hingað til, held ég, alltaf verið samþykkt þegar búið er að fara í þennan feril, enda eru stjórnarskrárbreytingar yfirleitt gerðar í mikilli sátt og eiga að vera það. Ég tel því mjög brýnt að þingið breyti 79. gr. stjórnarskrárinnar þannig að kosningar, þjóðaratkvæðagreiðslur, séu ekki bara upp á punt, séu ekki bara plat.

Ég sagði áðan að sumir teldu að þingmenn ættu að taka afstöðu til allra mála og það sé heilmikil vinna einmitt að kynna sér mál og annað slíkt. Ég minnist þess að þegar frumvarp um fjölmiðla var til umræðu 2004 sagði þáverandi stjórnarandstaða, sem mig minnir að hafi verið Samfylking og Vinstri grænir — einmitt þeir sem sitja nú í stjórn, það er dálítið athyglisvert — eftir þriggja mánaða umræðu, þriggja mánaða langar ræður í þinginu og eftir þriggja mánaða kynningu á málinu að þeir væru bara ekki búnir að kynna sér málið nógu vel. Þrír mánuðir hefðu ekki dugað til að kynna sér málið nógu vel og þeir vildu meiri tíma. Þá veltir maður því fyrir sér: Hvernig ætti þjóðin að geta tekið afstöðu til þessa máls? Hvernig ætti hinn almenni verkamaður og iðnaðarmaður, verkakona, verslunarkona að taka afstöðu til t.d. fjölmiðlamálsins ef þingmenn sem gera ekki annað allan daginn þurfa þrjá mánuði til þess og það dugar ekki til til að kynna sér málið? Hvernig ætti þá hinn vinnandi maður sem er að sinna allt öðru og hefur kannski ekki mjög mikinn eða ódrepandi áhuga á málinu að kynna sér málið, að taka afstöðu til þess í hvelli? Þetta er það sem mælir gegn því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur um allt of mörg mál. Sum mál eru kristaltær. Ég tel að Icesave-málið hafi verið mjög kristaltært, annaðhvort samþykkir maður þennan samning eða fellir hann. Það var í mínum huga gífurleg skuldbinding annars vegar og hins vegar von um einhvern betri samning sem svo kom í ljós að var skárra, strax í næsta tilboði munaði 80 milljörðum þannig að menn græddu mjög mikið á því að fella þann samning. Eins er ábyrgð þeirra þingmanna sem greiddu frumvarpinu atkvæði mjög mikil þannig að þjóðaratkvæðagreiðsla krefst kynningar á málinu. Hún krefst þess að málið sé tiltölulega einfalt og afgerandi. En það þarf líka að vera mikilvægt. Við getum ekki farið í þjóðaratkvæðagreiðslu út af einhverju smotteríi. Þess vegna þurfa þeir ferlar sem leiða til þjóðaratkvæðagreiðslu að vera skýrir. Ég vil minna á að hér er ekki verið að ræða um frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslu eins og frumvarpið heitir heldur eins og hv. nefnd kemur með breytingartillögu um, þ.e. þetta er frumvarp til laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er nefnilega ekki verið að tala um það hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan sjálf á að eiga sér stað. Ég vil samt koma inn á það dálítið því að það skiptir töluverðu máli. Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá, sem ég tel bráðnauðsynlegt að sé rædd, finnst mér að það eigi að vera mjög þungt og erfitt að breyta stjórnarskránni. Ég vil hafa það svo þungt að jafnvel 65% þjóðarinnar verði að samþykkja breytinguna, ella eigi hún sér ekki stað. Það þýðir að það þarf að vera mjög góður samhljómur um málið og mikill áhugi líka. Það verða þá alla vega 65% kjósenda að taka þátt því að annars nást ekki þessi mörk.

Önnur mál sem hafa minna vægi, t.d. breyting á fjölmiðlalögum sem ég tel ekki eins mikilvæga og breytingar á stjórnarskránni, eru mál sem kannski 50% eða 55% af kjósendum þurfa að samþykkja og lágmarksþátttaka væri kannski 60% allra kjósenda, eitthvað svoleiðis. Það mætti alveg skoða. Svo mætti jafnvel hafa það þannig að 50% kjósenda samþykktu það. En þetta er eitthvað sem þarf að ræða þegar kemur að því að við förum að ræða um þjóðaratkvæðagreiðslur sem slíkar en ekki bara framkvæmd þeirra.

Ég sakna þess í þessu nefndaráliti að ekki sé talað um, eða alla vega hef ég ekki getað séð það, rafrænar kosningar, sem ég tel að séu það sem koma skal. Við erum nú þegar komin með marga rafræna þætti, ég millifæri alla vega viðstöðulaust í bankanum mínum alla daga og gef upp kennitölu og leyniorð og eitthvert svona dót. Og nú er að koma nýtt kort sem á að gera menn persónugreinanlega fyrir móttakandann, þá er það nokkuð öruggt þannig að ég held að menn þurfi að stefna að því að hafa svona kosningar rafrænar. Þá geta menn kosið heima hjá sér og reyndar hvar sem er í heiminum. Þá falla utankjörstaðaatkvæði niður. Ég get verið staddur í Tókýó og greitt atkvæði á Íslandi, kjörfundur opnaður klukkan þetta, ég tek þátt og atkvæðið er talið um leið. Ég held að menn ættu að hafa rafræna kosningu líka í huga í þessu og jafnvel er spurning um hvort nefndin ætti ekki að skoða málið milli 2. og 3. umr.

Síðan er spurningin um að skila auðu. Ég tel að þegar kjósandi ómakar sig á kjörstað og skilar auðu sé hann að segja eitthvað með því. Hann er eiginlega að segja mér það sama og þeir kjósendur í Reykjavík sem kusu Besta flokkinn, flokk sem gaf sig út fyrir að hafa enga stefnu en fékk samt mjög mikið fylgi. Ég sagði að það væri fyrir mig sem stjórnmálamann nánast eins og gula spjaldið, kjósendur gefa öllum stjórnmálamönnum langt nef með þessu og segja að stjórnmálamenn hafi eiginlega enga stefnu. Kannski er það rétt hjá kjósandanum. Hann er ekkert óskynsamur, ég neita því alveg. Reyndar trúði ég ekki þessum skoðanakönnunum sem voru fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Ég hélt að hinn skynsami kjósandi mundi sjá að sér og finna til ábyrgðar í kjörklefanum og kjósa svo þessa hefðbundnu flokka. En þegar það gerðist ekki áttaði ég mig á því að þetta var miklu alvarlegra. Þessir kjósendur skiluðu auðu, þeir gáfu öllum þingmönnum langt nef og sögðu í rauninni að stjórnmálamenn nytu ekki trausts. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða. Ég hef skoðað það mikið í huga mínum hvað vantar upp á traustið. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að í öllum svona kosningum sé alltaf reitur sem heitir „Skila auðu“ og ég vil að það sé alltaf gerður mikill munur á því að skila auðu og að ógilda atkvæðaseðil. Menn ógilda atkvæðaseðil í fíflaskap, af vankunnáttu eða eitthvað slíkt, það er engin meining á bak við það. En að skila auðu er ákveðin meining og sérstaklega ef maður þarf að krossa við reitinn „Skila auðu“ eða „Sitja hjá“. Þá segja menn að þeir séu ekki ánægðir með neinn af flokkunum sem eru í kjöri. Það held ég að þurfi að telja sérstaklega og jafnvel þarf að hafa sérstakan reit á kjörseðlinum eða í þessu rafræna formi, einhverja listabókstafi o.s.frv. í tölvunni. Þar sé einn reitur sem segir: „Skila auðu“, sem á að vera merki til stjórnmálamanna um það að þeir nái ekki tengslum við kjósendur.

Auðvitað eiga kjósendur að eiga auðvelt með að kjósa flokka. Það getur verið erfitt að velja milli tveggja flokka með svipaða stefnu en flokkarnir eiga allir að hafa afdráttarlausa stefnu og kjósandinn á að geta sagt: Ja, þessi flokkur ætlar að stefna þangað með mitt sveitarfélag eða mína þjóð eða mitt ríki, ef um er að ræða sveitarstjórnarkosningar eða þingkosningar. Þá á kjósandinn að geta sagt: Þessi flokkur vill fara þangað og mér hugnast sú stefna. Þess vegna kýs ég hann. Menn eiga sem sagt að kjósa eftir stefnumálum og eftir framtíðarsýn flokka og frambjóðenda en ekki vegna þess að þeir styðja þá bara eins og fótboltalið: Ég kýs þennan af því að hann kýs mig eða eitthvað svoleiðis. Ég held að hv. þingmenn þurfi að horfa dálítið í barm sér. Ég held að það sem kjósendur hafa verið að segja sé, og ég hef hugleitt þetta mikið, að kannski vanti á stefnuna. Kannski vantar á það að menn átti sig á því hvaða stefnu þessir flokkar og þessir frambjóðendur hafa. Erum við hv. stjórnmálamenn þessa lands nógu skýrir í orðum okkar til að kjósandinn viti hvert við erum að stefna? Þetta kemur inn í þjóðaratkvæðagreiðslur vegna þess að þær verða einmitt um svona mál sem eru hugsanlega umdeild og mikilvæg. Þess vegna tel ég að þegar menn ætla að setja þjóðaratkvæðagreiðslu í gang þurfi meiri hluti þingmanna að samþykkja það, jafnvel aukinn meiri hluti eða 10% kjósenda. 10% kjósenda ættu líka að geta sett ákveðin mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. hvort flugvöllur eigi að vera í Vatnsmýrinni. Það gæti farið í þjóðaratkvæðagreiðslu eða þá einhver önnur mál sem eru umdeild og menn vilja fá niðurstöðu í og niðurstaðan á að vera í samræmi við vilja þjóðarinnar. Þetta tel ég vera mjög brýnt þannig að ég er mjög hlynntur þessu frumvarpi svo langt sem það nær. Það er svo til eingöngu um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Það er ágætt að hafa það. Ég mundi vilja að nefndin skoðaði þetta jafnvel milli 2. og 3. umr. Ég er ekki að leggja það til endilega, heldur að hún skoði þennan rafræna flöt á þessu máli, að það sé líka hægt að hafa rafrænar kosningar því að það er örugglega það sem koma skal. Þegar menn eru farnir að spjalla við skattinn sinn, bankann sinn o.s.frv. í gegnum netið ættu þeir alveg eins að geta spjallað við ríkið sitt í gegnum tölvu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég er hlynntur þessu máli. Ég vil hins vegar að menn vindi sér í að búa til breytingartillögu við 79. gr. stjórnarskrárinnar og hafi hana tilbúna í handraðanum þannig að ef allt í einu skyldi koma til kosninga núna eftir helgi, sem maður veit aldrei með þessa hæstv. ríkisstjórn, sé hægt að skella breytingartillögu fram og samþykkja hana þannig að um málið sé eining. Þegar búið er að breyta 79. gr. getum við farið að halda þjóðaratkvæðagreiðslur og sett ákvæðið inn í stjórnarskrána með þeirri breytingu þannig að meiri hluti þjóðarinnar geti tekið afgerandi afstöðu til ákveðinna mála. En á meðan það hefur ekki verið gert eru allar þjóðaratkvæðagreiðslur nema úr 26. gr. og úr þessari takmörkun um þjóðkirkjuna meira upp á punt. Ég hugsa að það verði dálítið undarlegt upplitið á sumum kjósendum þegar þeir eru búnir að leggja á sig að greiða atkvæði og kynna sér eitthvert ákveðið mál, greiða um það atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu og svo er þeim sagt af þinginu: Þetta er nú eiginlega ekkert að marka, við ætlum að gera eitthvað allt annað.