138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

upprunaábyrgð á raforku.

576. mál
[19:02]
Horfa

Frsm. iðnn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 30/2008, um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl.

Iðnaðarnefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá iðnaðarráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um frumvarpið frá 14 aðilum og voru engar efnislegar athugasemdir gerðar í þeim við frumvarpið.

Með þessu frumvarpi er lagt til að innleiða í íslenskan rétt ákvæði um skyldu til útgáfu upprunaábyrgða á raforku frá svokallaðri samvinnslu með góða orkunýtni sem er að finna í tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins nr. 2004/8/EB, um að auka samvinnslu raf- og varmaorku sem byggist á eftirspurn eftir notvarma á innri orkumarkaðinum og um breytingu á tilskipun nr. 92/42/EBE.

Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 151/2006. Þess ber að geta að þessi tilskipun hefur takmarkaða þýðingu hér á landi. Hún tekur ekki til samvinnslu raforku og varma/hita með jarðhita og hefur því takmarkaða þýðingu hér á landi nema hugsanlega á afmörkuðum svæðum sem eru utan samtengds raforkukerfis. Það kom fram í umfjöllun nefndarinnar að það ætti helst við um samfélagið úti í Grímsey en þó eru afar litlar líkur á því að þar verði tekin upp slík samvinnsla sem hefði afleiðingar og tengist þessari tilskipun.

Iðnaðarnefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita allir nefndarmenn iðnaðarnefndar sem viðstaddir voru, þ.e. formaður nefndarinnar, Gunnar Bragi Sveinsson, Jón Gunnarsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Margrét Tryggvadóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson.