138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.

508. mál
[19:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í örfáum orðum gera grein fyrir fyrirvaranum sem ég gerði varðandi afgreiðslu nefndarinnar. Ég var sáttur við þá afgreiðslu sem málið fékk í nefndinni, sérstaklega vegna þess að þarna var komið til móts við ábendingar sem fram komu frá umsagnaraðilum, m.a. Persónuvernd. Ég tel að þær breytingar sem gerðar eru á frumvarpinu séu til heilmikilla bóta.

Einnig styð ég meginmarkmið frumvarpsins sem er að sameina opinberar stofnanir með eðlislíka starfsemi og ég vonast auðvitað til þess að með því móti megi vinna að hagræðingu í framtíðinni, þó að hún komi kannski ekki fram strax. Ég held að við verðum að horfast í augu við það að skipulagsbreytingar af þessu tagi skila ekki strax ávinningi en auðvitað vonumst við til þess að þær geri það þegar horft er fram á veginn.

Fyrirvari minn lýtur fyrst og fremst að því að mér finnst farið svolítið öfugt í hlutina með því að fara fram með frumvarpið áður en farið er í heildarendurskoðun löggjafarinnar sem þarna er. Ég vil bara halda þeirri athugasemd til haga. Í ljósi þess að ég styð meginmarkmið frumvarpsins þá styð ég málið og afgreiðslu þess hér í þinginu.