138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[19:26]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012, á þingskjali 1313.

Eins og gefur að skilja tók samgöngunefnd við fjölmörgum innsendum erindum og fjölmörgum gestum við umræður um þetta mál. Mér telst til að alls hafi 66 innsend erindi borist nefndinni við vinnslu þessa máls og gestir voru fjölmargir, eins og sjá má á þingskjalinu.

Fyrir nefndinni voru reifuð ýmis sjónarmið er varða samgönguáætlun. Meðal þeirra verkefna sem lögð var áhersla á fyrir nefndinni eru gerð reiðhjólastíga, efling almenningssamgangna, mannaflsfrekar framkvæmdir, þar á meðal fækkun einbreiðra brúa, viðhald vega, þjónusta við vegi, þar á meðal vetrarþjónusta við fjallvegi, upptaka veggjalda, lagning bundins slitlags, gangagerð, uppbygging flugvalla, uppbygging samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri, umhverfismál, tvöföldun vega og gerð 2+1 vega.

Gerð var smávægileg breyting á uppsetningu á töflu í lið 4.1.6 á þingskjali 973 að beiðni samgönguráðuneytisins en nefndin leggur ekki til breytingar á flugmálaáætlun og áætlun Umferðarstofu.

Hins vegar gerir nefndin eftirfarandi breytingartillögur við siglingamálaáætlun, kafla 3.1, Fjármál: Lagt er til að framlög til áætlunar um öryggi sjófarenda hækki um 10 millj. kr. árin 2011 og 2012. Árið 2009 var tilkynnt um 238 slys á sjómönnum til Tryggingastofnunar ríkisins en að meðaltali hefur verið tilkynnt um 340 slys á sjómönnum á ári til Tryggingastofnunar síðustu tíu ár. Sé litið lengra aftur má sem dæmi nefna að árið 1997 var tilkynnt um 388 slys til stofnunarinnar og árið 2002 voru þau 413. Af framangreindu má álykta að talsverður árangur hafi náðst í öryggismálum sjómanna. Í því ljósi telur nefndin afar brýnt að draga ekki úr framlögum til málaflokksins og leggur því til viðbótarfjárveitingar.

Nefndin gerir sömuleiðis breytingar á vegáætlun, kafla 4.2, Sundurliðun einstakra gjaldliða:

1. Lagt er til að í kaflann verði bætt gjaldliðnum Dýrafjarðargöng – undirbúningur. Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að samtenging byggða á Vestfjörðum væri að mörgu leyti sérstök og að taka yrði tillit til þess við gerð samgönguáætlunar. Nefndin telur að gerð jarðganga á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar efli samgöngur á milli byggða er nú tengjast saman með malarvegum og verða fyrir verulegum samgöngutruflunum yfir vetrartímann.

2. Lagt er til að 5 millj. kr. af framlagi til undirbúningsverka utan áætlunar á árinu 2011 og sama fjárhæð á árinu 2012 færist til undirbúnings Dýrafjarðarganga árið 2012, samtals 10 millj. kr.

3. Lagt er til að 5 millj. kr. af framlagi til sameiginlegs jarðgangakostnaðar á árinu 2011 og sama fjárhæð á árinu 2012 færist til undirbúnings Dýrafjarðarganga árið 2012, samtals 10 millj. kr.

4. Lagt er til að 34 millj. kr. árið 2011 og 28 millj. kr. árið 2012 færist af framlagi til Vestfjarðavegar, Eiði–Kjálkafjarðar, til undirbúnings verka utan áætlunar sömu ár. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að ákveðnir gjaldaliðir höfðu verið vanáætlaðir og að nauðsynlegt væri að bæta úr því. Framlög til Vestfjarðavegar verða færð aftur til verkefnisins eigi síðar en framkvæmdir við verkið Eiði–Kjálkafjörður hefjast.

Nefndin leggur til að ákvarðanir um einstakar framkvæmdir vegna tengivega ásamt fjárframlögum til bundins slitlags á einstökum tengivegum, samkvæmt samgönguáætlun, verði unnar í samráði við Vegagerðina og þingmenn kjördæmanna og að því loknu lagðar fyrir ráðherra. Tillaga Vegagerðarinnar um skiptingu fjár til tengivega er að fjárveitingunni verði skipt milli kjördæma eftir hlutfalli lengdar tengivega í hverju kjördæmi með malarslitlagi. Skiptingin verði þá eftirfarandi:

Suðurkjördæmi 17,7%, Reykjavík og Suðvesturkjördæmi 2,1%, Norðvesturkjördæmi 56,0% og Norðausturkjördæmi 24,2%.

Nefndin leggur einnig til þær breytingar á umferðaröryggisáætlun, kafla 6.1.2, Gjöld, að 2,5 millj. kr. af framlagi til verkefnisins „ökumaður og farartæki“ færist til áróðurs og fræðslu. Í nefndinni kom fram beiðni frá samgönguráðuneytinu um tilfærsluna í því skyni að 6,5 millj. kr. verði til ráðstöfunar vegna samnings við Grundaskóla á Akranesi er varðar umferðarfræðslu í grunnskólum.

Nefndin vekur athygli á því að vegna bágs efnahagsástands verður ekki hægt að sinna mörgum brýnum samgönguverkefnum eins og þyrfti að gera. Þannig er ljóst að talsvert vantar upp á að nægt fé sé fyrir hendi til að sinna viðhaldi vega með fullnægjandi hætti. Samkvæmt mati Vegagerðarinnar nægir áætluð fjárveiting til málaflokksins einungis fyrir um 65% af þeirri lágmarksþörf sem miðað er við til að koma í veg fyrir að gæði núverandi vega rýrni hvað burðarþol þeirra og yfirborð varðar. Bent hefur verið á að skortur á slíku viðhaldi kunni að koma niður á flutningsgetu og umferðaröryggi á vegum landsins. Nefndin vekur athygli á því að við gerð 12 ára samgönguáætlunar er brýnt að lögð verði aukin áhersla á viðhald vegakerfisins. Þá telur nefndin rétt að taka fram að það sé ákveðið óréttlæti fólgið í því að þau verkefni í samgöngumálum sem flýtt var í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar árið 2007 og enn er ólokið skuli ekki vera í samgönguáætlun 2009–2012. Þannig hafa byggðir sem stefnt var að því að viðhalda og styrkja með flýtingu samgönguframkvæmda ekki einungis þurft að taka á sig samdráttinn sem almennt hefur orðið í íslensku efnahags- og atvinnulífi, heldur einnig samdrátt vegna skerðingar aflaheimilda í þorskveiði síðustu ár. Því er mikilvægt að mati nefndarinnar að þær framkvæmdir sem hér um ræðir verði í forgangi á 12 ára áætlun í samgöngumálum sem væntanleg er hér inn á þing á næstu mánuðum.

Nefndin ræddi talsvert um vinnulag við gerð samgönguáætlana og hvernig mætti bæta það. Nefndin er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að taka upp ný vinnubrögð við undirbúning og gerð samgönguáætlana sem leiði af sér að samgönguáætlun hverju sinni falli að heildstæðri sóknaráætlun landsins alls og einstakra svæða. Til að ná þessum markmiðum þarf að endurskoða lög um samgönguáætlun.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þingmenn Róbert Marshall, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Ásbjörn Óttarsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Hv. þingmenn Árni Johnsen, Ólína Þorvarðardóttir og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið skrifa Björn Valur Gíslason, Róbert Marshall, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ásbjörn Óttarsson.

Virðulegi forseti. Það er ljóst að verulegur samdráttur hefur orðið í útgjöldum til samgöngumála á undanförnum árum. Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 ákvað ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að draga verulega úr framlögum til samgöngumála á fjárlögum ársins 2009, og nam það um 6 milljörðum kr. Á miðju síðasta ári lá ljóst fyrir að fjárlög ársins mundu heldur ekki standast og því var gripið til enn frekari aðgerða til að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Var þá m.a. ráðist í frekari niðurskurð á samgöngumálum sem á síðari hluta ársins nam tæpum 4 milljörðum.

Við gerð fjárlaga yfirstandandi árs var enn og aftur farið í að draga úr fjárlögum til samgöngumála líkt og annars staðar í rekstri ríkisins. Það leiðir því af sjálfu sér að mörgum framkvæmdum sem var fyrirhugað að fara í á tímabilinu hefur verið ýtt aftur í tíma og þær bíða þess að við náum okkur upp úr þeirri efnahagslægð sem við erum í. Við skulum heldur ekki fara í grafgötur með það að enn getur komið til þess að dregið verði úr frekari framlögum til samgöngumála. Því er ekki síður mikilvægt fyrir þennan hluta í rekstri ríkisins sem annan að við náum okkur sem fyrst upp úr efnahagslægðinni og náum að snúa málum okkur í hag að nýju sem allra fyrst.

Eins og áður hefur komið fram og kemur fram í nefndarálitinu hafa mörg verkefni í samgöngumálum sem áætlað var að ráðast í um land allt frestast um sinn og á meðal þeirra er hluti þeirra verkefna sem Alþingi ákvað að fara í í kjölfar niðurskurðar á þorskveiðiheimildum 2007. Skiljanlega hefur frestun á þessum verkefnum eins og öðrum haft sínar afleiðingar á viðkomandi svæðum sem treystu á að til þeirra mundi koma og að sókn í kjölfar samgöngubóta kæmi þeim síðar til góða. Eins og kemur fram í nefndarálitinu mun það bíða okkar við tólf ára áætlunina, sem er væntanleg í haust, að raða þessum verkum upp í nýja tímaröð í samræmi við getu okkar til framkvæmda og markmið okkar í samgöngumálum.

Þó er rétt að halda því til haga að nú er gert ráð fyrir að framlög til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu séu um það bil þau sömu og lengst af var hér á landi, allt fram að því að við misstum fótanna í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það er jafnframt rétt að vekja athygli á því að gert er ráð fyrir að farið verði í umfangsmiklar framkvæmdir í vegamálum á næstu árum með aðkomu fjárfesta og hafa lífeyrissjóðirnir verið nefndir sérstaklega í því sambandi. Frumvarp þess efnis liggur nú til umræðu í samgöngunefnd og verður vonandi afgreitt sem lög frá Alþingi fyrir sumarleyfi þingsins.

Virðulegi forseti. Mikil samstaða var í samgöngunefnd um afgreiðslu þessa máls. Undir það skrifa allir nefndarmenn og allir standa þeir að þeim breytingartillögum sem koma fram í nefndarálitinu og styðja þær. Þó að menn hafi ákveðna almenna fyrirvara á einstökum framkvæmdum sem slíkum er víðtækur stuðningur við þessa þingsályktunartillögu í samgöngunefnd. Hjá þingmönnum samgöngunefndar er skilningur á aðstæðum og skilningur á því að ekki eru nægir fjármunir til framkvæmda í augnablikinu og skilningur á því að við verðum að horfa til framtíðar varðandi uppröðun verkefna og gerðar samgönguáætlunar til langs tíma sem kemur inn á þingið í haust. Þá vænti ég þess að við fáum betra tækifæri til að marka spor okkar í gerð samgönguáætlunar til lengri tíma.