138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[19:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um samgönguáætlun næstu tvö árin, þ.e. þá sem nær yfir árin 2009–2012.

Ég vil byrja á því að taka undir það sem hv. þm. Björn Valur Gíslason, formaður nefndarinnar og framsögumaður nefndarálitsins, sem ég stend að með fyrirvara, sagði hér áðan, að það væri mikill skilningur í nefndinni á því verkefni sem fram undan væri í ljósi efnahagshrunsins. Það hefur oft verið þannig hér í þingsal að menn fara í mikil yfirboð og annað í sambandi við samgönguáætlun vegna þess að af nógum verkefnum er að taka og mjög brýnum víða. Þó að þau séu misbrýn á hverju svæði fyrir sig hafa menn oft og tíðum farið í yfirboð og lagt til stóra hluti sem henta í þeirra eigin kjördæmi og tekið umræðuna með þeim hætti.

Breið og góð samstaða náðist í nefndinni, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason benti hér á, og samgönguáætlunin var afgreidd af öllum sem voru viðstaddir þegar það var gert þó að fjórir af sex setji almenna fyrirvara sem ekki er mikill ásteytingarsteinn um. Það liggur líka alveg ljóst fyrir að í samgönguáætlun á árunum 2011 og 2012 notum við um 1/3 og tæplega það af því fjármagni sem á undanförum árum hefur verið notað í samgönguverkefni. Það sjá því allir hversu gríðarlegur niðurskurður er grunnurinn að þeirri áætlun sem við ræðum núna.

Í áætluninni eru afskaplega fá verkefni í hverju kjördæmi fyrir sig. Í Norðvesturkjördæmi, þar sem ég er þingmaður, eru þetta einungis fjögur verkefni á næstu tveimur árum sem verið er að fara í, annars vegar vegurinn um Eiði–Kjálkafjörð, hins vegar Strandavegur og síðan tvær brýr, annars vegar yfir Haffjarðará og hins vegar yfir Reykjadalsá. Þetta eru þau fjögur verkefni sem verða unnin í Norðvesturkjördæmi á næstu tveimur árum. Það sjá því allir hvernig þessi samgönguáætlun er og í hvaða búningi hún er. Hún er gerð við mjög erfiðar aðstæður þannig að ekki er verið að nýta mikla fjármuni í þetta.

Ef frumvarp til laga um að fara í einkaframkvæmd í vegaframkvæmdum, svokallaða lífeyrissjóðaleið, verður samþykkt hér á þinginu, sem væntanlega verður gert áður en þingið hættir, losnar þar um u.þ.b. 1,7 milljarða sem þá væri hægt að færa út í hin kjördæmin sem nú þegar eru bundin í þeim verkum sem þar eru inni, í Suðurlandsvegi, Reykjanesbraut, Vesturlandsvegi og Vaðlaheiðargöngum. Þeir peningar sem hugsanlega mundu losna þar færu þá í það að auka við á öðrum stöðum.

Þó verð ég að taka undir það, sem kom fram í ræðu hv. framsögumanns hér áðan, að þetta er jú einungis áætlun og það á eftir að samþykkja fjárlögin fyrir árið 2011 og fyrir árið 2012 þannig að hugsanlega gæti orðið einhver breyting á því, vonandi ekki niðurskurður en þó skal hafa allan vara á því. Þingið á að sjálfsögðu eftir að samþykkja fjárlögin fyrir næsta ár og þarnæsta þannig að við getum alveg eins átt von á því að það fari hugsanlega niður þó að ég voni svo sannarlega að það verði ekki niðurstaðan.

Þegar við afgreiddum fjárlögin fyrir árið 2010, í desember, lögðum við sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd það til að Vegagerðinni yrði heimilt að nýta þá fjármuni sem hún átti ónotaða frá árinu áður, 4,4 milljarða. Tillaga okkar gekk út á það að þeim fjármunum yrði varið til mannaflsfrekra smærri verkefna dreift um allt landið. Ég tel mikil mistök að það hafi ekki verið gert, líka í ljósi þeirra afleiðinga sem við höfum séð, í ljósi þess hve ástandið er bágborið í verktakaiðnaðinum í landinu og kannski sérstaklega hjá smærri verktökum sem því miður eru margir hverjir að týna tölunni. Við það glatast bæði verkþekking og eins eiga menn þá ekki þau tæki sem til þarf þegar menn fara af stað aftur. Þegar það er orðið svona þröngt um á markaðnum getur líka myndast ákveðin einokunarstarfsemi.

Það varð hins vegar ekki niðurstaðan þegar við afgreiddum fjárlögin fyrir árið 2010 en síðan það var gert er búið að heimila að færa á milli ára 1,9 milljarða af þessum 4,4. En ég tel, virðulegi forseti, að mun skynsamlegra hefði verið að gera það við afgreiðslu fjárlaga árið 2010 og skera þá frekar niður á öðrum stöðum eins og við lögðum til, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, og buðumst til þess að taka þátt í því að sjálfsögðu og standa að þeim tillögum sem þar eru.

Þegar við samþykkjum samgönguáætlun með þessu takmarkaða fjármagni komast því miður mörg brýn verkefni ekki inn á hana. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þegar betur árar og meira fer að verða um fjármuni til að fara í þær framkvæmdir koma þær að sjálfsögðu inn. Ég ætla hins vegar ekki að fara að telja þær upp því að það tekur sennilega það langan tíma að ég mundi klára ræðutíma minn hér ef ég færi að gera það. Þó að við séum að samþykkja þessa áætlun lít ég svo á að í henni séu brýnustu verkefnin í þeim kjördæmum sem í hlut eiga og þá er ég ekki að gera neitt lítið úr því sem vantar þar inn. Fjölmörg brýn verkefni eru ekki þar inni en í ljósi þeirrar fjárhagsstöðu sem við erum í er ekki framkvæmanlegt að fara í þau að þessu sinni.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma að þeim breytingartillögum sem gerðar voru í meðförum hv. samgöngunefndar sem nefndin stendur öll að. Þar voru gerðar örfáar breytingar, sumar mikilvægari en aðrar. Meðal annars er lagt til af meiri hluta samgöngunefndar að Dýrafjarðargöngin komi þá aftur inn á áætlunina. Þó að halda megi því fram að það séu mjög litlir fjármunir í þau stóru verkefni sem fram undan er, einungis 20 milljónir, eru þau eigi að síður komin inn í þessa áætlun sem við erum að samþykkja hér. Samstaða var um það í nefndinni að gera þetta með þessum hætti. Þó að sumir væru að sjálfsögðu ekki jafnáhugasamir um það og aðrir varð niðurstaðan að það yrði gert og ég fagna þeirri samstöðu sem myndaðist í nefndinni um það.

Eina tillagan sem nefndin gerir um aukningu fjármagns í samgönguáætlun fellur undir öryggi sjómanna. Það leiðir kannski hugann að því hvernig staðið er að gerð samgönguáætlunar. Þó svo að þingið fari alltaf yfir hana og geti gert þær breytingar sem það vill og telur að þurfi að gera vil ég vekja athygli á einu tillögunni sem lögð er til útgjaldaaukningar í samgönguáætlun og það er að ákveðið er að hækka liðinn um öryggi sjófarenda sem var í áætluninni 10 milljónir fyrir árið 2011 og árið 2012 en varð 20 milljónir árið 2010. Lagt er til í breytingartillögum hv. samgöngunefndar að sú tala haldi sér sem er nú á árinu 2010, verði áfram 20 milljónir árin 2011 og 2012. Þetta er eina tillagan sem lýtur að útgjaldaaukningu og er ég afskaplega sáttur við það að allir hv. þingmenn sem eiga sæti í samgöngunefnd töldu þetta brýnt mál og lögðust á sveif með því.

Ég verð hins vegar að segja það, virðulegi forseti, af því að ég er farinn að ræða gerð samgönguáætlunar í heild sinni, að í dag er þetta unnið þannig — og það er umhugsunarefni — að svokallað samgönguráð kemur að þessu í samvinnu við ráðuneytið sjálft. Formaður samgönguráðs er Dagur B. Eggertsson og hæstv. samgönguráðherra er að sjálfsögðu Kristján Möller. Það er kannski eina pólitíska aðkoman að málinu þar til samgönguáætlun er komin í þennan búning.

Nú þekki ég það ekki af minni stuttu þingreynslu hvort samgönguáætlanir hafi oft tekið verulegum breytingum í meðförum þingsins. Ekki er að efa að betra var að eiga við áætlunina, að setja verkefni inn í hana, þegar ríkissjóður var í betri stöðu en í dag. Þá hefur Alþingi hugsanlega átt meiri möguleika á því að bæta einhverju inn í hana. Við þær aðstæður sem við erum í, nú þegar við erum að vinna þessa samgönguáætlun, þegar verið er að skera niður og mikill halli er á ríkissjóði, 100 milljarða halli á ríkissjóði, sjá allir heilvita menn að ekki er borð fyrir báru að fara að bæta verulega við þessa áætlun, hún er að sjálfsögðu miðuð við það að menn komist fram úr þeim verkefnum sem fyrir liggja.

Hæstv. forseti. Þingið og hv. samgöngunefnd fara núna í það að vinna að tólf ára áætluninni, sem verður sjálfstæðara verk. En ég held að það væri áhugavert fyrir okkur í þessu ljósi að skoða þetta sérstaklega þegar svona árar. Ég get ímyndað mér að þegar menn gátu bætt við verkefnum hafi verið auðveldara að sætta sjónarmið allra, að menn hafi getað gengið sáttari frá borði. Því er ekki til að dreifa núna og hæstv. samgönguráðherra er kannski ekki mjög vinsæll þessa dagana að því leyti til að hann getur ekki verið að moka út miklum peningum í samgönguverkefni.

Ég vil líka vekja athygli á því, virðulegi forseti, að töluverð umræða var um það í nefndinni og menn hafa af því töluverðar áhyggjur — það kom líka fram hjá mörgum gestum sem komu til nefndarinnar — að við setjum hugsanlega of lítið í viðhald á vegakerfinu, að við gleymum því. Það kom fram hjá fulltrúum Vegagerðarinnar, þegar þeir komu fyrir nefndina, að mun meiri fjármuni þyrfti í það til þess að við lentum ekki í því að vegakerfið drabbaðist það mikið niður að slysahætta skapaðist. Ef vegakerfið drabbaðist niður yrði það líka stórt og mikið verkefni að koma því í lag á ný. Ég vil vekja sérstaklega athygli á þessu, virðulegi forseti, vegna þess að allir hv. þingmenn sem eiga sæti í samgöngunefnd voru meðvitaðir um þetta. Þó svo að við höfum ekki gert beina tillögu um að hækka þennan lið er þetta eitthvað sem menn verða að endurskoða. Þegar farið verður í fjárlagagerð fyrir næsta ár verður líka að skoða þetta sérstaklega. Fulltrúar frá öllum landsvæðum, sem komu fyrir nefndina, höfðu áhyggjur af þessu og nefndin tekur að sjálfsögðu undir það. Þetta er hlutur sem við verðum að skoða við gerð fjárlaga í haust.

Hnykkt er á því, virðulegi forseti, í nefndaráliti meiri hlutans, nefndaráliti sem allir hv. þingmenn samgöngunefndar standa að, að þau verkefni sem út af standa eftir að skorið var niður í þorskafla árið 2007 — þá boðuðu stjórnvöld til sérstaks átaks, annars vegar í vegaframkvæmdum og hins vegar í viðhaldsverkefnum og þar fram eftir götunum. Sumum þessara verka er lokið en öðrum ekki. Í samgöngumálum er tveimur af þeim verkefnum sem farið var í út af þeim niðurskurði lokið og er það annars vegar vegurinn yfir Fróðárheiði og hins vegar vegurinn yfir Öxi. Hv. samgöngunefnd bendir á þetta í nefndaráliti sínu og vekur athygli á því að taka þurfi sérstakt tillit til þess svo að þessi samgönguverkefni njóti forgangs þegar farið verður að vinna tólf ára áætlunina í haust. Þetta tel ég mjög mikilvægt, virðulegi forseti, vegna þess að eins og kemur fram í nefndarálitinu er mjög mikilvægt að þeir sem urðu fyrir skerðingunni og áttu að fá til þess sértækar aðgerðir til þess að minnka höggið — að það standi út af hjá sumum en ekki öðrum. Það er gríðarlega mikilvægt að þetta verði leiðrétt í tólf ára áætluninni því að farið var í þessi verkefni á sínum tíma til þess að bregðast við þeim niðurskurði sem varð. Þetta hefur ekki verið klárað, eins og ég segi, á þessum tveimur verkefnum og það mun þá njóta forgangs við tólf ára áætlunina þegar farið verður í hana í haust.

Mig langar að minnast á annað í þessum verkefnum sem ég þekki mjög vel, sem er vegurinn yfir Fróðárheiði. Þó að reyndar sé mjög lítill kafli eftir af honum er uppkeyrslan að norðanverðu mikill farartálmi. Í raun og veru er það mál sem barist hefur verið fyrir alveg frá 1994 en það var í tíð ríkisstjórnar Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks þegar menn fóru í sameiningu sveitarfélaga. Þá var sagt við þau sveitarfélög sem sameinuðust — sveitarfélagið Snæfellsbær varð til þá, fjögur sveitarfélög sameinuðust — að að sjálfsögðu yrði að klára þetta verkefni við Fróðárheiði því að öðruvísi væri ekki hægt að tengja sveitarfélagið saman. Fróðárheiðin er farartálmi og þar sem læknisþjónustu, slökkviliðsþjónustu og öðru er sinnt yfir heiðina er mjög mikilvægt að það verkefni sé klárað. Það vildi þannig til, virðulegi forseti, að hæstv. forsætisráðherra starfaði þá sem hæstv. félagsmálaráðherra og var mikið í mun að ná fram sameiningu sveitarfélaga. Var þetta eitt af þeim verkefnum sem talað var um að gert yrði og var það forsendan fyrir því að sveitarfélagið Snæfellsbær yrði til. Ég vonast til að það verði þá komið inn í tólf ára áætlunina sem unnin verður í haust þannig að við sjáum fyrir endann á þeim stutta bút sem eftir er. Hann er gríðarlega mikill farartálmi og gríðarlega mikilvægt, þó að hann sé ekki langur og ekki dýr, að hann verði kláraður. Vil ég sérstaklega fagna þessu í nefndaráliti meiri hlutans.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja að við erum hér að samþykkja þingsályktunartillögu fyrir samgönguáætlun og við eigum eftir að samþykkja fjárlögin fyrir árið 2011 í haust. Þá mun þingið að sjálfsögðu endanlega afgreiða þá fjármuni sem það telur að hægt sé að setja í þessi verkefni og mörg brýn og mikilvæg verkefni bíða allt í kringum landið. Samt sem áður er áætlunin samin við mjög erfið skilyrði og fjármunir eru litlir, einungis um 1/3 af því sem verið hefur undanfarin ár. Það endurspeglar að sjálfsögðu það ástand sem er í þjóðfélaginu og meira er ekki hægt að gera í bili. Ég ítreka þó enn og aftur að verði þessi lífeyrissjóðaleið farin með einkaframkvæmdum mun losna um 1,7 milljarða sem mætti þá nýta til frekari framkvæmda úti í kjördæmunum.