138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[20:13]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég fagna líka samstöðunni sem var í nefndinni og prýðilegum vinnubrögðum sem þar fóru fram. Einhverjir kaldhæðnir kynnu kannski að halda fram þeirri kenningu að samstaðan hefði hlotist af því að þar var eiginlega ekki um neitt að deila. Það voru náttúrlega engir peningar í spilunum þannig að kannski fann sig enginn nefndarmaður í því að vera með mikil háreysti í þessu ásigkomulagi. En ég held samt sem áður að samstaðan í nefndinni og þau fínu vinnubrögð sem þar voru ástunduð af öllum nefndarmönnum hafi ekki bara verið af þeim orsökum.

Það þarf samt sem áður að forgangsraða í árferði eins og er núna og það voru ýmis álitamál í vinnu við samgönguáætlun nú eins og áður þó að ekki væri úr miklu að spila. Áherslurnar almennt sem ég fagna í samgönguáætlun eru á t.d. almenningssamgöngur og umhverfisvænar samgöngur, áherslur á hjólreiðar og notkun nýrra orkugjafa eins og repju eins og hefur verið nefnt. Það sem ég hef áhyggjur af er framlagið til viðhalds einkum og sér í lagi, og þær áhyggjur voru ansi víðtækar hjá umsagnaraðilum. Ég þykist vita að hæstv. samgönguráðherra hafi áhyggjur líka af litlu framlagi til viðhalds á þessu árabili og það getur vel verið að þetta litla framlag til viðhalds komi í bakið á okkur einhvern tímann í því að sumir vegir verði jafnvel ónýtir eftir þetta tímabil. Og þá yrði það, eins og einhver orðaði það, dæmi um svona frekar slæma lántöku. Ég geri ráð fyrir að þetta hljóti að verða skoðað, við verðum auðvitað að halda vegunum við þannig að viðhaldsleysið komi ekki í bakið á okkur síðar.

Ég er býsna ánægður með, talandi um samstöðu í nefndinni, að nefndin var einhuga um það, þótt sumir hafi haft fyrirvara á því, að setja fjármuni í undirbúning Dýrafjarðarganga. Talandi um áætlanagerð og heildarsamhengi hlutanna og talandi um sóknaráætlanir þá eru t.d. Vestfirðir dæmi um landsvæði sem menn líta á í sóknaráætlunum sem eina heild. Þá er náttúrlega mikilvægt að samgöngurnar tryggi að Vestfirðir séu ein heild og til þess þurfum við að leggja vegi, til þess þurfum við að tengja byggðarlögin. Það þarf náttúrlega að leggja almennilegan veg til Patreksfjarðar og það eru fjármunir til þess í áætluninni, þó að ýmsar lagalegar flækjur hindri þá vegagerð sem er orðin ein sorgarsaga, og einnig þarf að ráðast í Dýrafjarðargöng. Það þarf að bora þau, leikskólabörnin á Þingeyri eru byrjuð og nú þarf bara að koma með stórvirkari vinnuvélar og fylgja í kjölfarið. Og þær 20 millj. kr. sem eru settar til þess inn í samgönguáætlunina eru til vitnis um að samgöngunefnd telur að þau göng séu og eigi að vera á áætlun, að það eigi að fara í þá framkvæmd, enda er hún forsenda fyrir því að Vestfirðir séu eitt sóknarsvæði ef við viljum tala um sóknarsvæði í þessu tilliti.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um samgönguáætlunina en mig langar hins vegar aðeins að tala um langtímaáætlunina og hvernig við horfum fram í tímann í þessum efnum. Það að samgönguáætlun fái okkur svona litla fjármuni úr að spila setur auðvitað meiri pressu á það að einhver von felist í langtímaáætluninni sem kemur inn í þingið í haust um að það verði farið af fullum krafti í nauðsynlegar framkvæmdir á Íslandi. Við getum náttúrlega ekki látið vegakerfið drabbast svona niður um árabil eins og þessi samgönguáætlun gerir ráð fyrir.

Hvernig eigum við að haga samgöngumálum og áætlanagerð í samgöngumálum í framtíðinni? Ég geri ráð fyrir að sú umræða verði tekin mjög mikið í aðdraganda langtímaáætlunar sem kemur í haust. Einnig er talað um að settur verði á stofn þverpólitískur hópur til að skoða framtíðarfyrirkomulag á gjaldtöku af vegakerfinu. Ég sit í einum svona hóp en mér skilst að hann sé óformlegur þannig að nú þarf að stofna einn formlegan og ég fagna því. Þetta eru áleitnar spurningar.

Nú tala sumir, finnst mér, eins og að til standi að breyta innheimtu gjalda af umferð þannig að nú verði tekið gjald fyrir notkun með GPS-kubbi. Ég er frekar vilhallur því að fara í þessar tæknibreytingar, ég held að þær opni möguleika á því að stýra umferð betur um landið, stýra álagi og svoleiðis. En ég vil vekja athygli á því að nýbreytnin mundi ekki felast í því að við værum að taka gjöld fyrir notkun á vegunum. Nú þegar borga bifreiðaeigendur, þeir sem keyra borga 107 kr. af hverjum bensínlítra sem þeir kaupa til að keyra. Það er náttúrlega ekkert annað en notendagjöld og vegakerfið skilar satt að segja talsverðum pening í kassann á hverju ári, u.þ.b. 30 milljörðum. Mér finnst enginn dagur betri til þess, kannski ekki endilega í dag af því að við erum að ljúka fundi, mér finnst enginn betri tími til þess en samtíminn til að skoða hvað við ætlum að gera við alla þá innkomu sem kemur í vegakerfið á ári hverju. Þrjátíu milljarðar koma núna af 107 kr. af hverjum bensínlítra og þó að við ákvæðum að taka þessa 30 milljarða inn einhvern veginn öðruvísi, með GPS-kubbi í bílum, blasir alltaf við sama spurningin: Hvað ætlum við að nýta mikið af þessum fjármunum í vegagerð? Ástæðan fyrir því að þetta er svona aðkallandi spurning er sú að áætlanagerð að þessu leyti hefur verið verulega ábótavant á síðustu árum. Það lítur ekkert sérstaklega skynsamlega út að akkúrat þegar mikil þensla var í samfélaginu og jafnvel undir lok þeirrar þenslu spýttum við verulega í í vegagerð og þá peninga hefðum við betur haft núna þegar þörfin er á mannaflsfrekum framkvæmdum. Jafnömurlegt og það er að hafa enga peninga núna í atvinnuleysi til að fara í mannaflsfrekar framkvæmdir á vegum ríkisins, þó að við gerum það hugsanlega í gegnum lífeyrissjóðina, er það líka ömurlegt að þeim peningum hafi verið eytt á þenslutímabilinu 2007. Þetta leiðir auðvitað hugann að því af hverju við eigum ekki að fara í það fyrr í íslensku samfélagi að sveiflujafna betur í vegaframkvæmdum. Við höfum þessa innkomu og ég vona að í langtímaáætluninni munum við ákveða að setja ákveðið hlutfall af innkomu af vegagerð, hvort sem það er tekið með GPS-kubbum eða einhverju öðru, í vegagerð og það verði þá gert ekki síst í þeim kreppum sem íslenska þjóðfélagið á örugglega eftir að fara í gegnum á komandi árum líka, þetta er örugglega ekki sú eina, vegna þess að samgönguframkvæmdir þjóna mikilvægum tilgangi í kreppu. Það er öfugsnúið að við skulum haga okkur þannig að við setjum peningana einkum í vegagerð í góðæri en eigum svo ekki fyrir slíku í kreppu. Þörfin á langtímahugsun í vegagerð með tilliti til þeirra fjármuna sem koma inn af vegasamgöngum er gríðarleg.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég endurtek að ég set mikla pressu á langtímaáætlunina, ég vona að þar birtist heildarhugsun, ég vona að þar birtist framtíðarhugsun og ég vona að þar birtist ný hugsun. Nú fer væntanlega að síga á seinni hlutann í þessari umræðu, enda margir þingmenn væntanlega áfjáðir í að fara að nota þessa umræddu vegi til að koma sér heim til sín.