138. löggjafarþing — 139. fundur,  14. júní 2010.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[12:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mér þykir vænt um þær yfirlýsingar sem hér koma fram hjá bæði formanni Sjálfstæðisflokksins og varaformanni Framsóknarflokksins þar sem þeir hafa lýst yfir góðum vilja sínum til að hægt sé að lenda þinginu í friði. Ég var að vísu svolítið hugsi yfir ummælum hv. varaformanns Framsóknarflokksins um að það þyrfti að enda það líka með siðsamlegum hætti. Ég veit ekki alveg hvað hann átti við.

Ég vil bara segja það fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að við erum reiðubúin til að ræða við stjórnarandstöðuna um að ljúka málum og það á tilsettum tíma. Menn þurfa þá að gefa eftir, báðar hliðar þingsins. Ég tók auðvitað eftir því að talsmaður Hreyfingarinnar sagði hins vegar að það væri ekkert að því að halda þinginu lengur til að ræða vatnamál og skuldamál. Ég er reiðubúinn til þess en ég er líka reiðubúinn til þess að leggja mitt af mörkun til að hægt sé að ná góðu samkomulagi þannig að allir geti staðið upp sáttir og við ljúkum þinginu á réttum tíma.