138. löggjafarþing — 139. fundur,  14. júní 2010.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[12:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það má kannski segja til einföldunar að það sé tvennt sem brennur helst á þingmönnum. Hér er mjög mikið rætt um vatnalögin. Skipuð var nefnd til að fara yfir þann ágreining sem reis árið 2006. Sá ágreiningur snerist um eina grein í lögunum. Skipuð var nefnd til að fara yfir það. Hún skilaði 200 blaðsíðna skýrslu. Þar var ekki tekin afgerandi afstaða til þess hvor hefði rétt fyrir sér í deilunni vegna þess að það er augljóst að leita á áfram leiða til að leiða þann ágreining í jörð og fresta gildistöku laganna enn um sinn. Það væri fullkomið glapræði að henda þeirri löggjöf í ruslatunnuna, eins og menn leggja til, vegna þess að það reis ágreiningur um eitt atriði. Ég geri hins vegar ekki lítið úr þeim ágreiningi en það er algert glapræði að kasta löggjöfinni fyrir róða.

Hitt vil ég segja varðandi skuldavanda heimilanna að við í Sjálfstæðisflokknum viljum að þar verði vandað til verka. Mönnum hefur gengið illa að ljúka almennilegri lagasetningu um þau efni. Það er bersýnilegt t.d. af því frumvarpi sem er í smíðum (Forseti hringir.) í félagsmálanefnd þar sem frumvarp félagsmálaráðherra var tekið og lagt til hliðar og verið er að semja ný frumvörp. Vöndum til verka. Það er krafa okkar. Við getum ekki hlaupið (Forseti hringir.) til og gert bragarbót á núgildandi löggjöf eða komið með ný frumvörp í einhverju krampakasti á þinginu.