138. löggjafarþing — 139. fundur,  14. júní 2010.

geislavarnir.

543. mál
[12:24]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég fagna því skrefi sem Alþingi er að taka hér í dag, þ.e. að banna börnum að hafa afnot af sólarlömpum í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum á stöðum sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum. Reynt hefur verið að koma fræðslu til barna og ungmenna um þá áhættu sem þau taka við notkun sólarlampa. Sú fræðsla hefur ekki skilað sér, notkun þeirra er óbreytt. Tíðni krabbameins hefur aukist og við skerum okkur úr. Ég tel að okkur beri skylda til að grípa til þeirra ráða sem mælt er fyrir. Það er ekki lengur vafi, það er staðreynd að geislun frá sólarlömpum er krabbameinsvaldandi. Því fagna ég þessu rétt eins og við fögnuðum því nota bæri bílbelti og bönnuðum sölu tóbaks til barna og unglinga innan 18 ára aldurs.