138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

reglur um þjóðfánann.

643. mál
[12:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef áhuga á því að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvort til standi að breyta reglum um þjóðfánann, t.d. um fánadag og hve lengi dags halda megi fánanum við hún og þannig auka svigrúmið til þess að hafa fánann uppi við, sérstaklega yfir sumartímann. Þann 17. júní árið 1944 var íslenski fáninn tekinn opinberlega í notkun hér á landi og lögin um fánann hafa tekið ótrúlega litlum breytingum frá þeim tíma. Það má því færa rök fyrir því að fánalögin séu nokkuð gamaldags og hafi kannski ekki alveg fylgt tíðarandanum. Þó hafa menn verið að ræða um ýmsar breytingar. Ég get nefnt það, fyrst við stöndum hér á hinu háa Alþingi, að þjóðfáninn hangir hér uppi forseta á hægri hönd, vinstri hönd séð frá sal, og það var árið 2007 sem við ákváðum það, það eru bara þrjú ár síðan. Grænlendingar settu þjóðfánann sinn inn í sinn þingsal fyrir 22 árum. Mér finnst það mjög merkilegt hvað þeir voru fljótir til, Grænlendingarnir. Þeir afgreiddu það ekki einu sinni með atkvæðagreiðslu í þingsal heldur ákvað bara forsætisnefnd grænlenska þingsins að koma fánanum fyrir, það eru 22 ár síðan. Við gerðum þetta fyrir þremur árum með atkvæðagreiðslu. Það var hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sem flutti um það þingsályktunartillögu sem var svo samþykkt hér, eða það frumvarp, ég man ekki hvort var, alla vega samþykktum við það. Færeyingar ákváðu fyrir stuttu á sínu þingi að greiða atkvæði um hvort þjóðfáni þeirra ætti að hanga uppi í færeyska þinginu. Hann var settur upp 19. janúar þannig að það er hálft ár síðan það var.

Við erum með til umfjöllunar í þinginu að breyta fánalögunum á þann veg að við getum merkt íslenskar búvörur með íslenska fánanum. Ég vona að það verði samþykkt. Bændasamtökin hafa lagt mikla áherslu á þetta mál. Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu um að auka notkun fánans á sumrin sérstaklega, þannig að ekki þurfi að gera eins og nú er að taka fánann niður um miðnætti. Ég hef mikinn áhuga á því að athuga hvort ekki sé hægt að koma því þannig fyrir að á sumrin, yfir bjartasta tímann, getum við haft fánann uppi allan sólarhringinn. Maður þarf þá ekki að taka hann niður fyrir miðnætti eða fyrir sólarlag.

Sumir vilja að við afnemum reglurnar með öllu, þ.e. að við gætum haldið fánanum við hún allan sólarhringinn allt árið, líka í mesta skammdeginu. Ég er ekki tilbúin til að ganga svo langt í fyrsta skrefinu, það getur vel verið að það komi til greina síðar. Ég held alla vega að við verðum að hafa rýmri fánalög og því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Kemur til greina að mati forsætisráðherra að koma því þannig fyrir að við getum haldið fánanum við hún allan sólarhringinn, t.d. í sumarbústaðahverfum, (Forseti hringir.) á sumrin eða bara við heimili fólks á sumrin, þannig að ekki þurfi að taka hann niður um miðnætti?