138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

reglur um þjóðfánann.

643. mál
[12:39]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um hvort til standi að breyta reglum um þjóðfánann, t.d. um fánadaga og hve lengi dags halda megi fánanum við hún og auka m.a. svigrúm til að hafa fánann uppi yfir sumartímann.

Þessu er til að svara að af hálfu forsætisráðuneytisins hafa ekki verið uppi áform um að breyta þeim reglum um notkun þjóðfána Íslands sem hv. þingmaður vísar til. Ég tel á hinn bóginn sjálfsagt að það verði tekið til skoðunar hvort tilefni sé til að taka þessar reglur til endurskoðunar, m.a. samanborið við þau sjónarmið sem þingmaðurinn nefnir og rakin eru í þingsályktunartillögu sem hv. fyrirspyrjandi hefur lagt fram um rýmri fánatíma.

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram á þinginu frumvarp til laga um breytingar á lögum um þjóðfána Íslands sem nú er til meðferðar í allsherjarnefnd. Þar er lagt til að heimildir til að nota íslenska fánann í vörumerki eða söluvarning, umbúðir og auglýsingar á vöru eða þjónustu sem er íslensk að uppruna, verði rýmkaðar mjög frá því sem nú er. Þeim tillögum var vel tekið við 1. umr. um málið hér á Alþingi en við þá umræðu var jafnframt rætt um hugmyndir hv. fyrirspyrjanda um rýmri fánatíma og var þeim hugmyndum einnig vel tekið enda má segja að það sé í takt við þá hugsun sem frumvarpið byggir á um aukið frjálsræði á þessu sviði.

Ég hef haft þær spurnir af því máli sem ég hef flutt í allsherjarnefnd að óvíst sé hvort það verður afgreitt fyrir lok þessa þings, en við sjáum til. Ég ítreka að ég er tilbúin að skoða jákvætt þá leið sem hv. þingmaður leggur til með frumvarpinu.