138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

óeðlileg undirboð í vegagerð og byggingariðnaði.

408. mál
[12:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þær upplýsingar sem hér komu fram. Ég tel miðað við orð hæstv. ráðherra að það hefðu verið full efni til þess af hálfu samkeppnisyfirvalda að skoða þessi mál til hlítar.

Nú er það svo að mikil breyting hefur orðið á eignarhaldi margra fyrirtækja á markaðnum í dag og mörg fyrirtækja í þessari grein eru tengd ákveðnum viðskiptabönkum með beinum eða óbeinum hætti. Þá veltir maður fyrir sér hver staðan er á samkeppnismarkaði þar sem við horfum jafnvel upp á að fyrirtæki sem tengjast ákveðnum fjármálafyrirtækjum með beinum hætti, gera mjög lág tilboð á þessum markaði, og önnur fyrirtæki í eigu einstaklinga sem hafa verið vel rekin í gegnum tíðina þurfa að keppa við þau. Eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan bjóða fyrirtæki í sumum tilvikum í verk sem getur augljóslega ekki borgað sig. Þegar sú regla gildir innan fjármálakerfisins í dag að fyrirtæki þurfi að sýna fram á ákveðið greiðsluflæði og ákveðin verkefni út árið til að fá fyrirgreiðslu í bönkunum er hætt við því að þetta vindi æ meira upp á sig þannig að menn sjái hag sínum best borgið með því að bjóða mjög lágt. Hvað leiðir það af sér? Jú, í framhaldinu, eftir nokkra mánuði, þarf viðkomandi bankastofnun mögulega að afskrifa eitthvað á viðkomandi fyrirtæki vegna þess að menn fóru einfaldlega of lágt í tilboðsgerð sinni.

Ég hvet hæstv. ráðherra og reyndar samkeppnisyfirvöld í landinu til að skoða þetta mál. Verktakar í byggingariðnaði og vegagerð mynda mjög stóran atvinnuveg. Það er mikilvægt að utanumhald um þennan markað sé skýrt (Forseti hringir.) og að þau yfirvöld sem eiga að fylgjast með stöðunni á markaðnum haldi vöku sinni.