138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

Maastricht-skilyrði og upptaka evru.

464. mál
[12:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Eins og alþjóð veit hefur Ísland lagt inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Í ljósi þess er rétt að fara enn einu sinni yfir helstu röksemdir stuðningsmanna aðildar Íslands að Evrópusambandinu sem þeir héldu á lofti fyrir ári síðan þegar aðildarumsóknin var til umræðu. Eina leiðin til að tryggja efnahagslegan stöðugleika á Íslandi væri að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru, þá mundi það takast.

Nú er ljóst að hvorki aðild að Evrópusambandinu né evran hefur tryggt efnahagslegan stöðugleika í Grikklandi, Ítalíu, Spáni, Portúgal, Írlandi og fleiri löndum. En vegna þess að það hefur verið notað sem ein helsta röksemdin fyrir því að Ísland skuli ganga þarna inn er rétt að fá það fram hvort og þá hvenær við Íslendingar munum uppfylla hin svokölluðu Maastricht-skilyrði um upptöku evru.

Ég er talsmaður þess að fara málefnalega yfir þetta mál þrátt fyrir að ég sé þeirrar skoðunar að hagsmunum okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Þess vegna er rétt að beina fyrirspurn til efnahags- og viðskiptaráðherra, þar sem skilyrðin eru upptalin. Ég hlakka til að heyra hvaða svör ráðherrann hefur.

Hérna er m.a. spurt hvenær gera megi ráð fyrir að Ísland uppfylli Maastricht-skilyrðin samkvæmt þeim efnahagsspám sem ríkisstjórnin styðst við og talin eru upp.

Samkvæmt þeim efnahagsspám sem ríkisstjórnin styðst við, hvenær er þá gert ráð fyrir að Ísland nái því marki að hafa verið aðili að gengissamstarfi Evrópu í a.m.k. tvö ár án gengisfellingar og að gengi krónunnar hafi á þeim tíma verið innan tiltekinna vikmarka, sem eru skilyrði þess að ríkið geti tekið upp evru?

Í umræðunni finnst enn fólk sem heldur því fram að þegar við höfum fengið grænt ljós á að ganga inn í Evrópusambandið, þá sé ekki eftir neinu að bíða að taka upp evru. Þess vegna er mjög mikilvægt að það komi skýrt fram í umræðunni með hvaða hætti það verði gert. Hvaða skilyrði eru fyrir því að við tökum upp evru? Þá fyrst getum við farið að ræða hvenær það væri mögulegt. Þá getum við einnig rætt hvort þetta eigi að vera einhver ákvörðunarástæða fyrir íslenska þjóð, þ.e. að taka ákvörðun um það í fyrsta lagi að sækja um aðild að Evrópusambandinu og í öðru lagi að samþykkja að ganga þar inn.

Ég, ásamt öðrum hv. þingmönnum, legg fram tillögu um það að umsóknin verði dregin til baka. Ég tel að það sé farsælast fyrir íslenska þjóð. Ég tel einnig að verið sé að veifa villuljósum framan í okkur Íslendinga með því að lofa því að efnahagsástandið muni verða betra þegar við göngum til aðildarsamninga.