138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

gjald fyrir ónýttar yfirdráttarheimildir.

471. mál
[13:25]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að hið opinbera má ekki með neinum hætti leggja hindranir í veg fyrir þá sem vilja skipta um hvort heldur það er viðskiptabanka eða tryggingafélag eða önnur slík fyrirtæki sem menn bindast oft langtímaböndum með langtímaviðskiptasambandi. Sá skattur sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni, stimpilgjald, er vissulega umhugsunarefni í því samhengi. Nú heyra skattar almennt undir fjármálaráðherra en ekki efnahags- og viðskiptaráðherra en sem ráðherra samkeppnismála ætla ég þó að leyfa mér að halda því fram að þessi skattur sé frekar óheppilegur frá samkeppnissjónarmiði, einmitt af þeim ástæðum sem hv. þingmaður ræddi. Ef hægt væri að breyta tilhögun þessarar skattheimtu þannig að hún kæmi ekki í veg fyrir að menn flyttu viðskipti sín á milli fjármálafyrirtækja vegna þess kostnaðar sem hlýst af því að greiða upp lán og taka lán að nýju, m.a. vegna stimpilgjalds, mundi ég fagna því. Ég bara vona og treysti að hv. þingmaður muni starfa með mér og öðrum að því að leita leiða til þess að fá því framgengt.