138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn.

596. mál
[13:32]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni kærlega fyrir fyrirspurnina. Mig langar aðeins til að árétta að við tölum um Austurland en ekki Austfirði, sérstaklega þar sem hreindýr eru. Ég hugsa að hreindýraeftirlitsmenn verði dálítið fúlir þegar talað er um hækkandi aldur þeirra því að þeir yngjast verulega í hvert skipti sem þeir fara á veiðar. Ég held að þeir líti þannig á að þeir séu eilífir að minnsta kosti, ef ekki enn meira.

Ég þekki svolítið til málaflokksins sem er okkur á Austurlandi afar mikilvægur og skapar heilmiklar tekjur og ég held að það sé alveg rétt að það þurfi að fara að hugsa fyrir því að einhver endurnýjun verði meðal leiðsögumanna. En mig langar til að ítreka að ég held að það sé afar nauðsynlegt að við höldum áfram eins og nú er að vera með staðkunnugt fólk sem þekkir aðstæður, því að oftar en ekki er verið að veiða í slæmu skyggni og oft hefur þoka verið ástæðan fyrir því að kvótinn hefur ekki náðst. Ég legg því áherslu á að mikilvægt er að leiðsögumenn séu staðkunnugir á þessum slóðum.