138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn.

596. mál
[13:33]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég heyrði að hæstv. umhverfisráðherra sagði að ekki væri þörf á að halda þessi námskeið og svo væri reyndar líka verið að breyta reglunum þannig að þetta tvennt hafi orðið til þess að námskeið var ekki haldið. Mér finnst svolítið merkilegt að matið á þessu máli er mismunandi. Í grein sem Sigmar B. Hauksson skrifaði ekki fyrir löngu síðan, en hann hefur verið í forsvari fyrir skotveiðimenn um langt skeið og hefur fylgst með þeirra málum og verið einn af framámönnunum í Skotveiðifélagi Íslands, segir að það hafi dregist úr hófi að halda nýtt námskeið og að mikil þörf sé á að fjölga leiðsögumönnum. Mér finnst því merkilegt að menn hafi svona mismunandi sýn á þessa hluti. Ég vildi því gjarnan heyra, ef hæstv. umhverfisráðherra getur í seinna svari sínu lagt mat á það, hvort það sé mjög mikil þörf á að endurskoða lögin um störf, nám og hæfniskröfur fyrir hreindýraleiðsögumenn, sem alla vega Sigmar B. Hauksson telur að séu ófullkomin eins og þau eru núna.