138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn.

596. mál
[13:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er gaman að vera í þessum mikla kvennafans og ræða hreindýraveiðar. Ég þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni. Ég ætla ekki að fara að karpa um hvaða landshluti þetta er, við þekkjum það öll, en ég lít svo á að þetta sé, ég segi kannski ekki vannýtt auðlind en að hægt sé að gera miklu betur hvað varðar hreindýraveiðar, bæði varðandi faglega þáttinn og sömuleiðis þjónustuna og atvinnutækifæri fyrir Austurland. Það er enginn vafi í mínum huga.

Ég, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, furða mig aðeins á svörum hæstv. ráðherra og vek athygli á því að hæstv. ráðherra hefur alla vega ekki tilgreint hvenær næsta námskeið verður haldið. Ég held að það sé sjálfsagt að fara yfir alla þætti, m.a. hæfniskröfur. Staðbundin þekking er afskaplega mikilvæg, en það gengur mikið á, ef maður getur orðað það þannig, það er mikið að gerast á þeim dögum þegar álagið er mest. Þá er gríðarlegt álag á leiðsögumönnum sem sem betur fer leggja það á sig að sjá til þess að kvótinn náist. Það væri auðvitað hægt að ná betri árangri með því að dreifa álaginu og það er mikilvægt, en ég sé engin efnisleg rök fyrir því að halda ekki námskeið þótt ekki væri nema einu sinni á fimm ára fresti.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða þessi mál vel og skoða þetta með heimamönnum sérstaklega. Mér finnst athyglisverð hugmyndin sem kom frá hv. þm. Önnu Margréti Guðjónsdóttur. Aðalatriðið er að menn vinni þetta með fólkinu sem býr þarna og á hvað mestra hagsmuna að gæta. Auðvitað eiga allir Íslendingar hagsmuna að gæta að vel sé farið með þá dýrastofna sem hér eru og að við nýtum þau tækifæri sem eru í ferðaþjónustu og þarna eru mjög spennandi tækifæri. (Forseti hringir.) Ég hvet hæstv. ráðherra til að hugsa það örlítið betur hvort ekki sé rétt að halda námskeið, það eru að verða tíu ár frá því að það var haldið síðast.