138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn.

596. mál
[13:38]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka enn ágæta umræðu. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að taka þær ábendingar til skoðunar sem hér koma fram og held raunar að það, eins og fyrirspyrjandi tók saman í lokin, sé prýðileg hugsun sem næsta skref í málinu, þ.e. að skoða og fara yfir stöðu mála með heimamönnum. Ég held að þeir séu best til þess fallnir að skoða málið.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi greinaskrif Sigmars B. Haukssonar varðandi þörfina á námskeiðum. Ég tek undir það sem hún veltir hér upp að þetta eru þær upplýsingar sem ég fæ frá Umhverfisstofnun að ekki sé þörf á því að halda námskeið og hafi ekki verið þörf á því. Ég held hins vegar að fullur sómi sé að því að halda námskeið þegar tíu ár eru liðin frá því síðasta. Ég held að við getum því sagt það hér að það er vilji minn að halda námskeið vorið 2011 og það verði þannig.

Hv. þm. Anna Margrét Guðjónsdóttir nefndi möguleika á aðkomu Fræðslunets Austurlands sem mér finnst afar spennandi og full ástæða til að kanna það mál sérstaklega. Það er, eins og hún bendir réttilega á og hefur náttúrlega komið fram á þjóðfundum víða um land, mjög mikilvægt að nýta bæði þá þekkingu og þá möguleika á störfum og uppbyggingu sem eru heima í héraði sem farveg fyrir starfsemi af þessu tagi. En það er gríðarlega mikill slagkraftur og sóknarkraftur í hreindýraveiðunum sem ég held að við eigum að horfa til og nota og einn hluti af því er auðvitað að halda reglulega námskeið fyrir leiðsögumenn.