138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

lækkun launa í heilbrigðiskerfinu.

606. mál
[13:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir spurningar þeirra og svör. Ég tel að þetta sé upphafið að frekari umræðum þar sem menn fara nánar í þetta. Stóra einstaka málið er að við þurfum að halda uppi þjónustunni með minni fjármunum en við höfum verið með áður.

Við breytinguna á genginu lækkuðu laun heilbrigðisstarfsfólks gríðarlega í samanburði við nágrannalöndin. Við þurfum, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að hafa í huga að heilbrigðisstarfsfólk hefur tækifæri til að vinna annars staðar. Við verðum að líta til þess sérstaklega. Við höfum hér nokkurn veginn alla þjónustu sem við getum hugsað okkur á heilbrigðissviðinu og við megum ekki verða eins og sum nágrannalönd okkar sem þurfa að senda sjúklinga til annarra landa vegna þess að þau geta ekki sinnt þeim heima (Forseti hringir.) því að þar er hvorki aðstaða né mannskapur. Þetta er eitt af því (Forseti hringir.) sem við verðum að líta til, virðulegi forseti.