138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

lækkun launa í heilbrigðiskerfinu.

606. mál
[13:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Markmiðið í þessu aðlögunarferli sem bitnar því miður á heilbrigðisþjónustunni eins og annarri starfsemi ríkisins er auðvitað fyrst og síðast að tryggja öryggi sjúklinga. Í niðurskurðinum er markmiðið fyrst og síðast að verja störfin, eins og ég nefndi áðan, og til þess er fær sú leið sem ég benti á, að ástunda launajöfnun. Það er munur á því eftir stofnunum hvernig laun hafa lækkað. Þannig hafa til að mynda laun lækna á sjúkrahúsum lækkað um 6,9%, í heilsugæslunni um 7,9% en á heilbrigðisstofnunum úti um land um 2,7%. Ég vil líka nefna sem dæmi um þær breytingar sem orðið hafa á launakjörum að vaktaálag hjúkrunarfræðinga hefur hækkað, en yfirvinna hefur lækkað um 51% og önnur laun um 19,2%. Laun sem eru utan flokka, eins og sagt er í skráningu, hafa lækkað um 59%.

Það er mikil breyting orðin á starfseminni á sjúkrahúsunum. Það er minna um hlutastörf og meira um heilsdagsstörf. Ég tek undir með hv. þingmanni að þegar læknar sérstaklega og hjúkrunarfræðingar líka taka sér frí og leita að vinnu bæði innan lands og erlendis getur það leitt til þess að erfiðara verði að manna vaktir og það gæti þess vegna skert þjónustu og gæði. Þess vegna er mjög rækilega fylgst með þessu, ekki aðeins á vegum heilbrigðisráðuneytisins heldur einnig af hálfu landlæknisembættisins sem gerir það ekki bara í samráði við forstjóra heilbrigðisstofnananna heldur einnig (Forseti hringir.) í gegnum fagfélögin.

Ég vil bæta einu við, frú forseti, í heilbrigðisráðuneytinu hefur sérstökum starfsmanni verið falið að (Forseti hringir.) fylgjast með áhrifum þessara kjarabreytinga.