138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

áhrif skattahækkana á eldsneytisverð.

636. mál
[14:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru greinargóð og á margan hátt athyglisverð. Það sem hefur valdið mestu um þróun eldsneytisverðs allra síðustu missirin á Íslandi er auðvitað þetta mikla fall gengisins sem varð á síðasta hluta ársins 2008. Á sama tíma lækkaði samt sem áður eldsneytisverð erlendis í dollurum talið en hin mikla gengislækkun gerði það að verkum að við neytendur nutum þess ekki.

Það sem hefur síðan gerst er að menn hafa hækkað gjaldtöku á eldsneyti og það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði, það var gert í desember 2008 af ástæðum sem þá blöstu við. Það hafði orðið tekjufall hjá ríkissjóði og menn voru auðvitað að leita leiða til þess að brúa það bil sem orðið hafði á milli tekna og gjalda ríkissjóðs á því ári og stefndi í á næsta ári. Með þeim breytingum sem gerðar voru haustið 2008 var verið að undirbúa árið 2009. Hins vegar hefur verið haldið áfram á sömu braut og hækkanirnar sem hér er verið að tala um komu á hærri krónutölu vegna þessa, sem veldur því að þó að hlutfallstalan hækki ekki hefur krónutalan hækkað sem þessu nemur miklu meira. Það hefur mjög íþyngjandi áhrif á hag almennings sem, eins og við vitum, hefur ekki fengið þetta upp borið með launahækkunum. Þvert á móti hafa orðið launalækkanir og atvinnuleysi enn fremur sem hefur rýrt hag almennings. Það er ljóst að ef við skoðum þetta í samhengi við ráðstöfunartekjur almennings er engin spurning að eldsneytiskostnaður er núna hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum almennings en áður var.