138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

áhrif skattahækkana á eldsneytisverð.

636. mál
[14:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við fyrra svar mitt að bæta. Ég hygg að það gefi tæmandi upplýsingar um það hver hlutdeild skattanna er og hver hlutdeild hækkunar þeirra á þessu tímabili er í núverandi útsöluverði.

Ég vil láta það sjónarmið mitt koma fram í tengslum við þetta að fram undan er það verkefni að endurskoða fyrirkomulag skattlagningar á umferð meira og minna í heild sinni og það er af mörgum ástæðum orðið löngu tímabært. Við þurfum að tryggja að það séu innbyggðir skattalegir hvatar til að stuðla að sparneytni og sem minnstum umhverfisáhrifum umferðarinnar, tryggja að endurnýjun bílaflotans verði í þeim farvegi að sparneytnir bílar og farartæki sem nota umhverfisvæna orkugjafa verði sem hæst hlutfall af endurnýjun í bílaflotanum. Það mun að óbreyttu kerfi draga umtalsvert úr tekjum ríkissjóðs en slíkir bílar þurfa eftir sem áður vegi.

Ef við tökum bara þá miklu framþróun sem orðið hefur t.d. í dísilhreyflum er það ævintýri líkast hversu aflmiklir og sparneytnir nýjustu dísilhreyflar eru sem skila sama afli og ágætisspyrnu þó að eyðslan sé kannski komin niður í fimm lítra á hundraðið. Eftir því sem bílum og farartækjum fjölgar á vegunum sem alls ekki nota jarðefnaeldsneyti, og eru þar af leiðandi meira og minna undanþegin núverandi skattlagningu, nálgast það vandamál æ meir að svara spurningunni hvernig sú umferð eigi að leggja sitt af mörkum til að byggja og reka umferðarmannvirkin. Þetta viðfangsefni blasir við okkur og að því er verið að huga í fjármálaráðuneytinu, og hefur reyndar verið gert á undanförnum árum. Ýmsar ágætar skýrslur liggja fyrir um framtíðarfyrirkomulag skattlagningar í þessum efnum, hvernig menn geta hlúð að almenningssamgöngum og annað í þeim dúr. (Forseti hringir.) Það verkefni bíður að fara yfir þessi mál í heild sinni og vonandi verður hægt að hefjast handa við það sem fyrst.