138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

starfsmenn dómstóla.

648. mál
[14:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra og hún varðar hvaða úrræði starfsmenn dómstóla hafa sem telja brotið á sér í starfi, hvort þeir geti leitað til dómstólaráðs, umboðsmanns Alþingis eða eitthvað annað.

Í 2. mgr. 2. gr. laga um umboðsmann Alþingis, nr. 85/1997, segir að umboðsmaður sé í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum, að meðtöldu Alþingi, og í 3. gr. laganna er gerð grein fyrir starfssviði hans. Umboðsmaður Alþingis getur sjálfur ákveðið hvort hann tekur mál til meðferðar og það er ekki á valdi annarra, hvorki Alþingis eða ráðuneytis, að skipa svo fyrir um, taka afstöðu til eða skipta sér af starfssviði umboðsmanns. Í frumvarpi til laga um dómstóla, sem varð að lögum nr. 15/1998, kemur einnig fram í almennum athugasemdum við I. kafla að þeirri stefnu hafi verið fylgt að tryggt væri í sem ríkustum mæli að dómstólar yrðu óháðir löggjafar- og framkvæmdarvaldinu og að þeir væru jafnframt sjálfstæðir varðandi stjórn innri málefna. Í 4. mgr. 16. gr. laga um dómstóla segir að dómstólaráð hafi eftirlit með störfum dómstjóra og er því gengið út frá því að beina skuli kvörtunum um stjórnsýslu héraðsdómstólanna til dómstólaráðs.

Frú forseti. Aðili sem starfar hjá dómstólum og telur á sér brotið virðist samkvæmt þessu ekki geta skilað eða beint kvörtunum sínum til umboðsmanns Alþingis heldur þarf hann að beina þeim til dómstólaráðs. Satt best að segja þykir mér að svo náin tengsl séu með dómstólaráði, starfsmönnum og dómurum að vart sé hægt að ímynda sér að þar sé hlutdrægnislaust tekið á málum. Sá aðili sem starfar hjá dómstólum og telur brotið á sér í starfi virðist samkvæmt þessu ekki geta borið t.d. ráðningar, framhaldsráðningar eða það að hann telji á sér brotið undir æðra stjórnvald heldur verður hann, hæstv. forseti, að beina málum sínum til dómstóla. Ég spyr hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra, og ég legg áherslu á mannréttindaráðherra, hvort hún sjái einhver önnur úrræði fyrir starfsmenn til að leita með kvartanir sínar, telji þeir á sér brotið í starfi, annað en til dómstólanna sjálfra og hvort hún sjái í hendi sér að hægt sé að breyta lögum svo að til þess komi.